144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[12:41]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir spurninguna og vangaveltur í þessu sambandi. Já, ég held að það sé þannig. Segir ekki í máltækinu að oft sé betur heima setið en af stað farið? Ef við vitum ekki hvert breytingar leiða okkur — við megum náttúrlega ekki fara með þetta í þær öfgar að við breytum aldrei neinu, ég er kona breytinga og vil gjarnan breyta og stundum held ég að það sé gott að vera svolítið köld í því að breyta. En stundum er íhaldssemin betri, til dæmis í þessu tilfelli.

Nú er nýbúið að breyta stjórnarráðslögunum, þeim var breytt 2011. Þá stóðu menn á öndinni yfir því að breyta ætti þeim lögum, en þau höfðu verið sett árið 1970 svo að ég taldi nú allt í lagi að fara yfir 40 ára gömul lög. En núgildandi lög eru sem sagt frá 2011. Ég tel að betur sé heima setið en af stað farið í þessu efni og sérstaklega ef hv. þingmaður les greinargerð og athugasemdir við þessa grein, sem er langt og mikið mál og eiginlega alveg óskiljanlegt, virðulegi forseti. Menn eru komnir inn með úrskurðarnefndir og eitt og annað. Ég tel það beinlínis óráð að breyta þessu á þessu stigi.