144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[12:48]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Ég þóttist vita að maður kæmi ekki að tómum kofanum þegar að þessum málum kæmi hjá hv. þingmanni. Hún var ásamt mér þátttakandi í þeirri lagasetningu á síðasta kjörtímabili sem hér er verið að breyta, þ.e. núgildandi lögum um Stjórnarráð Íslands frá 2011. Það var reyndar mjög skemmtileg vinna, það rifjaðist upp fyrir mér í morgun þegar ég fór í gegnum það ferli að í allsherjarnefnd voru mjög góðar umræður um þessi lög og auðvitað höfðu menn til hliðsjónar rannsóknarskýrslu Alþingis og það sem úrskeiðis fór í aðdraganda hrunsins þegar við vorum að fara yfir þetta. Nefndin lagði til fjölmargar breytingartillögur.

Það sem er hins vegar jákvætt þegar maður skoðar umræðuna sem fram fór á þeim tíma að það er þá skjalfest, bæði í ræðum hæstv. forsætisráðherra og svo í greinargerðinni með þeim lögum sem nú eru til umfjöllunar, að það var innantómt orðagjálfur hjá hæstv. forsætisráðherra, þáverandi hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, vegna þess að gagnrýnin á það að verið væri að flytja vald frá löggjafarvaldi til framkvæmdarvaldsins er bara orðin tóm af því að nú er nákvæmlega verið að gera það.

Mig langar til að biðja hv. þingmann að lýsa upplifun sinni af því, hvort þetta sé ekki ótrúleg hræsni þegar menn verða vitni að því í þessari umræðu að menn meintu ekkert með þeirri gagnrýni sem fram kom á lögin á þeim tíma, það er greinilegt.