144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[12:53]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í síðara andsvari mínu langar mig að spyrja um þá hugmynd að hægt sé að flytja störf og stofnanir eitthvert, og nota bara sem dæmi starf alþingismannsins sem ég hef nú gegnt um sex ára skeið. Maður verður fljótlega þess áskynja í þessu starfi að maður er aldrei kominn heim úr vinnunni, maður er eiginlega alltaf í vinnunni. Þetta er þannig starf að það er eiginlega meira hlutverk en starf. Þessu hlutverki þegar maður hefur á annað borð tekið það að sér lýkur aldrei. Það er ekki þannig að menn fari í frí út í heim og séu lausir undan því sem fylgir þessu starfi. Maður er alltaf nettengdur, alltaf með símann á sér, alltaf að svara einhverjum spurningum eða eiga í einhverjum samskiptum. Nýjasta tæknin í nettengingum, samfélagsmiðlar og annað slíkt, hefur gert það að verkum að starfið hefur tekið miklum breytingum. Ég held að við sem gegnum því í dag séum í miklu meiri samskiptum við til dæmis kjósendur en áður tíðkaðist og menn séu almennt að afkasta mun meiru en nokkurn tímann hefur áður verið gert. Þess vegna áttar maður sig á því að starfinu sem er fyrir utan það sem gerist hér í salnum getur maður sinnt í rauninni hvar sem er. Auðvitað er það þannig líka þegar kemur að stofnunum samfélagsins.

Það er ekkert sem kemur í veg fyrir að starfsmenn Fiskistofu geti verið staðsettir hvar sem er á landinu. Þess vegna er hugmyndin um að ráðherra geti ákveðið, eins og það sé einhver tilflutningur á störfum, að flytja stofnanir eitthvað svo gamaldags hugsun. Hún hafði kannski eitthvert gildi í lok síðustu aldar þegar Landmælingar voru fluttar upp á Akranes, þá fluttu menn raunverulega einhver störf með. En er það ekki bara liðin tíð að menn geti þetta?