144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[14:48]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Vel lætur mér að flytja ræðu yfir Jóni á Brúsastöðum einum, eins og skáldið forðum. Hér hafa verið haldnar margar ræður um frumvarp sem stundum er kallað fiskistofufrumvarpið en ég hef leyft mér að kalla valdfrekjufrumvarpið. Þó að ég sé í mörgum efnum andsnúinn ýmsum ákvæðum frumvarpsins vil ég þó segja í upphafi að ég er í reynd sammála því meginatriði sem er þó óskráð í frumvarpinu sem er það markmið að freista þess að láta landsbyggðina njóta meira réttlætis að því er varðar skiptingu starfa sem eru til og verða til innan hins opinbera geira. Ég held að það sé markmið sem við öll erum sammála.

Þær ræður sem hér hafa verið fluttar hafa allar bent til þess að menn séu reiðubúnir til að leggja töluvert á sig til að flytja störf út á land eða sjá til þess að aukið hlutfall opinberra starfa sé staðsett þar. Í þeim efnum er ég sammála nánast öllum sem hér hafa talað fyrr í þessari umræðu. Sá sem fyrstur hélt hér sköruglega ræðu og mælti fyrir áliti meiri hlutans var hv. þm. Brynjar Níelsson — sem, eins og ég hef stundum bent á, er einna fremstur okkar í lagalegri rökhyggju, vegna þess að hann er fyrrverandi formaður Lögmannafélagsins — og eitt af því sem hann sagði, og ég var honum algerlega sammála um, var akkúrat þetta meginatriði.

Ég hef fortíð í þessu máli, frú forseti. Á sínum tíma sat ég í ríkisstjórn sem ákvað að reyna að koma því svo fyrir að stofnanir yrðu fluttar út á land. Þá voru menn settir til verka og það var búin til skýrsla. Sú ríkisstjórn, sem var fyrsta ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, komst að þeirri niðurstöðu að hægt væri að flytja sjö til níu stofnanir út á land. Í því ráðuneyti sem ég veitti þá forstöðu, umhverfisráðuneytinu, sem var lítið að vöxtum á þeim tíma, voru þrjár stofnanir sem menn töldu að hægt væri að flytja út á land. Það var veiðistjórinn, það var Skipulagsstofnun og það voru Landmælingar. Ég taldi þá, eins og mörgum ungum ráðherrum er títt, að ráðherrann ætti bara að ráða og þegar ríkisstjórnin hafði falið mér að ráðast í þetta verkefni þá hófst ég handa og byrjaði á smæstu stofnuninni. Það var embætti veiðistjóra. Mér fannst tilvalið að það embætti yrði flutt út á landsbyggðina, enda var helsta verkefni þess að veiða refi og minka og þeir voru fáir hér — kannski örfáir tvífættir í grennd við Alþingishúsið. En gamanlaust, þetta fannst mörgum þjóðráð. Eigi að síður var svo harkalega á því tekið og á þeim vesalings unga ráðherra sem tók sér þetta fyrir hendur að hann var nánast hálfdrepinn í ráðherrastóli og komst nauðuglega af. Ég minnist þess að Framsóknarflokkurinn, sem er, má segja, aðaluppspretta þess frumvarps sem við ræðum hér, lagði fram tillögu um sérstaka rannsóknarnefnd þar sem átti að rannsaka embættisfærslu þáverandi umhverfisráðherra. Hafði hann þó hvorki á sér álit umboðsmanns né niðurstöðu nokkurs dómstóls eða úrskurðarvalds sem mælti þessu í gegn.

Ég lét þó ekki deigan síga heldur hóf næsta verkefni, sem var að flytja Landmælingar. Það tókst með þeim hætti og fyrirstaðan var svo mikil að ég gafst upp á því, lét nótt sem nam, hætti við það. Á þeim tíma, þegar ég gaf skýrslu mína til Alþingis, sagði ég að það væri mín skoðun og þessarar ríkisstjórnar, sem varð til eftir umræður innan ríkisstjórnarinnar, að þetta væri ekki gerleg leið og ekki væri hægt að fara þá leið, sem ríkisstjórnin sú hafði ákveðið, að rífa á tiltölulega skömmu tíma úr grasi heila stofnun og flytja út á land. Ástæðan var það viðnám sem veitt var af starfsmönnum viðkomandi stofnunar og þegar við skoðuðum það mál komumst við að þeirri niðurstöðu að þeir höfðu lög að mæla. Það væri mjög erfitt að fara þá leið að taka starfslið heillar stofnunar og ætla að flytja með manni og mús út á landsbyggðina fjarri þeim högum sem áður höfðu talist til heimatúna.

Úr þeirri umræðu, sem tók að vísu nokkur ár, spratt ákveðin stefna. Í millitíðinni var það að vísu ráðherra Framsóknarflokksins sem tók upp þann þráð sem ég sleit og flutti á endanum Landmælingar með ærnu erfiði upp á Akranes. Í kjölfar þess og meðan á þeirri umræðu stóð þá hygg ég að segja megi að þingið gervallt og allir þeir flokkar sem hér áttu sæti hafi komist að þeirri niðurstöðu að sannarlega væri það rétt markmið að flytja störf út á land. En í öðru lagi komust þeir líka að þeirri niðurstöðu að þessi leið væri ekki, nema þá í einhverjum undantekningartilvikum og með mjög löngum aðdraganda, rétt aðferð.

Menn drógu þá ályktun af þessari vegferð allri, sem ég held að hafi tekið þrjú til fjögur ár, að besta leiðin til að koma störfum út á land væri sú að reisa útibú stofnana á landsbyggðinni, flytja starfsfólk þangað og gróðursetja þannig í kringum þessi útibú og um leið treysta þær rætur sem viðkomandi samfélög stóðu á. Þetta var gert og sá maður sem mér fannst þá takast best upp — honum tókst á bestu dögum jafnvel að sameina kosti bæði Ronaldos og Messis þegar hann spændi sig í gegnum vörn stjórnarandstöðunnar á þeim tíma sem ég var þá partur af — var Þorsteinn Pálsson, sem einu sinni var formaður Sjálfstæðisflokksins en var þá sjávarútvegsráðherra. Hann hóf þetta einmitt með því að setja upp nokkur útibú Fiskistofu. Í kjölfarið fylgdu útibú frá Hafró og víða hafa sprottið upp litlir vísinda- og þjónustuklasar sem hafa vaxið í skjóli þessara tveggja stofnana. Í kjölfarið hafa fleiri stofnanir flutt starfsemi út á landsbyggðina. Ég nefni til dæmis skattinn. Þetta hefur gefist vel. Þetta er leiðin, hygg ég, sem menn eiga að fara í þessu efni.

Önnur aðferð er líka til og það eru störf án staðsetningar. Það vill svo til að ég var þingmaðurinn sem flutti þá þingsályktunartillögu á sínum tíma, var þá í stjórnarandstöðu sennilega árin 2006 eða 2007. Það var umdeilt á sínum tíma. Menn fóru hins vegar yfir það hér og málefnaleg umræða varð um það efni í sölum Alþingis og að lokum var það samþykkt í öllum flokkum. Störf án staðsetningar varð, samkvæmt samþykkt Alþingis, leið sem allir flokkar voru sammála um að hægt væri að nýta til að koma störfum innan opinbera geirans út fyrir Reykjavík. Það gekk þokkalega þangað til ég varð utanríkisráðherra, hugðist gefa í og nýta þessa leið í auknum mæli til að koma störfum inn á ýmsar stofnanir, sem voru þá að vaxa undir handarjaðri mínum, einkum og sér í lagi útibú Þýðingarmiðstöðvar á Austurlandi, á Akureyri og á Ísafirði. Þá voru reistar skorður við því vegna þess að einn af þeim sem vildi inna af hendi starf án staðsetningar bjó í Reykjavík og taldi eðlilega að hann mætti vinna það úr sinni heimabyggð. Við vorum því ósammála en hann leitaði álits umboðsmanns Alþingis sem var honum sammála. Það má segja að á þeim tíma, árið 2011 eða 2012, hafi komið í ljós að af jafnræðissökum var miklu torveldara en áður að fara þá leið sem við höfðum þá um nokkurt skeið beitt með ágætum árangri til að færa störf út á landsbyggðina.

Þetta vildi ég segja til að skýra mína sýn á málið. Ég hef komið að þessu og ég á kannski ekki barnanna fegurstu fortíð í þessu en ég hins vegar lærði af reynslunni. Þingið á þeim tíma lærði af reynslu minni og Guðmundar Bjarnasonar sem síðar tók upp þennan sama þráð. Og ég taldi að þingið hefði komist að ákveðinni niðurstöðu. En eins og ég hef sagt hér í nokkrum andsvörum undir þessari umræðu þá er það þannig að Alþingi skortir sögulegt stofnanaminni og oft kemur í ljós, og sérstaklega í þessu dæmi, að ráðuneytin skortir það líka. Við höfum áður rekist á sama skaflinn og ríkisstjórnin er að rekast á í þessu máli.

Þetta frumvarp, sem ég hef kallað valdfrekjufrumvarpið en er stundum kallað fiskistofufrumvarpið, hefur þann tilgang einan, að því er mér virðist, að skjóta einhvers konar lagastoð undir ákvörðun sem ég veit ekki einu sinni hvort er enn þá virk, en hv. þm. Brynjar Níelsson getur kannski upplýst mig um það á eftir. Hver er tilgangurinn með frumvarpinu? Er hann sá að hafa almenna heimild í lögum fyrir ráðherra til að geta ákveðið staðsetningu stofnana annars staðar en þær upphaflega spruttu úr jarðvegi? Eða er það fyrst og fremst — og mætti ég þá spyrja hv. þm. Brynjar Níelsson sem er framsögumaður meirihlutaálitsins — til að skjóta stoðum undir tætlurnar af ákvörðun hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem ákvað að flytja Fiskistofu frá Hafnarfirði til Akureyrar?

Nú vitum við að hæstv. ráðherra hefur hörfað tvisvar sinnum, fyrst úr hinu upphaflegu ákvörðun, breytti henni úr ákvörðun yfir í að vera áform og að því er ég síðast vissi þá var hann hættur við flutninginn en sagði að hugsanlega gæti hann orðið á 15 til 20 árum. Er tilgangurinn með þessu frumvarpi og 1. gr. þess þá fyrst og fremst sá að styðja hann í því og gefa honum lagaheimild til þess og þar með firra hann hugsanlegum kærum í framtíðinni? Ég tók eftir því að þegar umboðsmaður Alþingis veitti álit sitt kvað hann ekki upp úr um lögmæti ákvörðunarinnar en benti hæstv. ráðherra hins vegar á, eftir að hafa heldur betur, fannst mér, rassskellt hann, að skoða nákvæmlega hvaða lagalegu stoðir hann hefði fyrir ákvörðuninni. Ég er þeirrar skoðunar að hann hafi engar haft, þar sé hv. þm. Brynjar Níelsson sem hér fer fremstur í flokki til að hjálpa honum með það. Og það verð ég að segja að ef það er tilefni þá er ég ákaflega dapur yfir því. Það rennir enn frekari stoðum undir þá fullyrðingu mína að hér sé um valdfrekjufrumvarp að ræða.

Hvernig var málið til orðið? Var það hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem var upphafsmaður þessarar ákvörðunar? Ég dreg það í efa. Hver var það sem kynnti ákvörðunina? Það var hæstv. forsætisráðherra sem rauk norður á Akureyri og kynnti ákvörðun um flutning Fiskistofu á sínum tíma. Ég tel að það hafi fyrst og fremst verið af persónupólitískum hagsmunum hæstv. forsætisráðherra sem ákvörðun var tekin og það hafi ekki verið hæstv. sjávarútvegsráðherra sem hafi verið upphafsmaður hennar nema síður sé.

Ég sagði hér áðan að hv. þm. Brynjar Níelsson hafi haft sköruglega framsögu fyrir nefndaráliti meiri hlutans en þó að ég telji að hann sé með skýrustu mönnum þegar kemur að lagalegri rökhyggju í þessum sal þá tel ég hins vegar að þarna hafi hann skriplað á skötu og verulega skorti á röksemdir fyrir þeim róttæku breytingum sem hann mælti fyrir. Ég verð að segja: Það er óvanalegt að maður jafnlærður í lögfræði og hv. þingmaður skuli bera fram þau rök sem hann hafði hér í nefndaráliti sínu. Ég er til dæmis ekki sáttur við það að þegar hv. þm. Brynjar Níelsson lýsti því hvernig nefndin hafði fjallað mjög ítarlega um þetta ákvæði — sem er hið umdeildasta, ákvæði sem við köllum stundum fiskistofuákvæðið; það er það ákvæði þar sem lögð er til hin almenna heimild ráðherra til að kveða á um staðsetningu stofnana sem undir hann heyra nema á annan veg sé kveðið í lögum — þá lýsti hann því ítarlega hvaða sjónarmið hefðu komið fram í þessum efnum á fundum nefndarinnar. Það voru einkum tvö sjónarmið miðað við ræðu hv. þingmanns ef hann mundi nú gefa sér tíma til að hlusta á mig. Það er í fyrsta lagi að það væri ekkert sjálfgefið að opinberar stofnanir væru staðsettar í Reykjavík og sérstaklega tiltók hann að með hliðsjón af tækniþróun og landfræðilegri staðsetningu hefðu fjarlægðir minna vægi en áður. Ég er algerlega sammála því viðhorfi hjá hv. þingmanni.

Í öðru lagi sagði hv. þm. Brynjar Níelsson, muni ég rétt, að fram hefðu komið þau sjónarmið í nefndinni að ekkert væri sjálfgefið um það að ráðherra gæti ákvarðað staðsetningu opinberra stofnana einhliða. Hann sagði sjálfur að þar sem um væri að ræða mjög mikilvægt atriði fyrir rekstur stofnunar þá skipti óvissa í því máli mjög miklu efni. Það var hv. þingmaður sjálfur sem sagði að óvissan kæmi niður á starfsfestunni og í öðru lagi gæti það takmarkað samkeppnishæfni stofnunar og mun hafa átt við samkeppni stofnana um hæfa starfsmenn. Mér kom hins vegar á óvart að þegar hv. þingmaður, sem var framsögumaður meirihlutaálitsins, hafði greint samviskusamlega frá þessum álitaefnum í ræðu sinni þá reifaði hann þetta ekki neitt frekar. Hann vó hvorki rök með né á móti að því frátöldu að hann vísaði í dóm að því er varðaði Landmælingar. Eftir að hafa með þessum hætti reifað andstæð sjónarmið og varið meiri tíma í að reifa þau sjónarmið sem mæltu gegn þessu en með þessu, þá vatt hann sér bara í að segja að eigi að síður væri meiri hlutinn þeirrar skoðunar að þessi heimild ætti að vera fyrir hendi. Það sem mér þykir líka merkilegt er það að hv. þingmaður hefur ekki frumkvæði að því að reisa valdi ráðherrans í þessum efnum neinar sérstakar skorður, að minnsta kosti gerir hann það ekki með breytingartillögum. En svo að öllu sé til haga haldið þá kom það mjög skýrt fram í áliti hans og þeirra að meiri hlutinn teldi að horfa yrði til þeirra orða sem komu fram í áliti umboðsmanns. Ef ég má leyfa mér að vitna beint í þau orð sem hrutu af vörum hv. framsögumanns þá geri ég það:

„Meiri hlutinn telur engu síður nauðsynlegt að við slíkar ákvarðanir verði að gæta að reglum um málefnalega stjórnsýslu og vísar í því sambandi til niðurstöðu umboðsmanns Alþingis vegna kvörtunar starfsmanna Fiskistofu vegna áforma um fyrirhugaðan flutning stofnunarinnar frá Hafnarfirði til Akureyrar.“

Mér finnst athyglisvert að þetta skuli ekki vera reifað frekar í nefndarálitinu. Ástæðan er sú að ráðherrann fær auðvitað mjög harðan áfellisdóm í áliti umboðsmanns, sem segir að það hafi ekki samrýmst þeim skyldum ráðherra sem leiði af lögum um Stjórnarráð Íslands að láta hjá líða að fá ráðgjöf innan ráðuneytisins eða með öðrum hætti. Umboðsmaður segir sem sagt að við þessar aðstæður, ef ráðherra ætlar að renna sér í svona ákvörðun þá verði hann að fá ráðgjöf um það annaðhvort innan eða eftir atvikum utan stofnunarinnar.

Í álitinu kemur líka skýrt fram að hæstv. ráðherra hefur vanrækt rannsóknarskyldu sína og með tilliti til þessa dæmis og með hliðsjón af því að hér er verið að búa til heimild sem er næsta opin þá hefði ég ætlað hv. þm. Brynjari Níelssyni að hafa frumkvæði að því að lagðar yrðu fram breytingartillögur sem reistu einhverjar skorður við þessu valdi. Ég tel sem sagt að það sé ekki nægilegt að hv. þingmenn meiri hlutans vísi einungis með tiltölulega einföldum hætti í álit umboðsmanns Alþingis. Við þurfum að gera ráð fyrir því að ráðherraeðlið sé eins og mannlegt eðli, breyskt, og það komi upp menn, ungir og vaskir, sem telji að þeim sé allt vald frá guði gefið um leið og þeir tylla bakenda sínum í ráðherrastól og fari kannski dálítið þjösnalega með sitt vald. Þá vil ég bara geta þess af minni eigin reynslu að mitt viðhorf til valds sem ungur ráðherra var mun frumstæðara en það viðhorf sem ég hef þróað með mér af langri reynslu þannig að ég mundi telja að ég yrði miklu blíðara yfirvald núna.

En af því að tími minn er þrotinn þá vildi ég segja það að ég varð fyrir vonbrigðum með hv. þm. Brynjar Níelsson yfir því að hann skyldi að minnsta kosti ekki, af þeirri sannfæringu og umhyggju sem ég veit að hann hefur fyrir lögunum, reisa einhvers konar skorður, girðingar, í þessu frumvarpi ef hann á annað borð ætlar að láta þetta fara fram. Ég vil að lokum segja það að ég tel að ástæðan fyrir því að hv. þingmaður flutti málið af svona lítilli einurð sé sú að hann hefur enga trú á því sjálfur.