144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[15:09]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er auðvitað einkum hv. þm. Brynjar Níelsson sem á að veita andsvar, en það gerir ekkert til þó ég komi hér og þakki hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir góða ræðu og sérstaklega þá persónulegu rakningu og yfirlit yfir sögu þessara mála sem fram fór í fyrri hluta ræðu þingmannsins. Ég tók eftir því að hann taldi að um það væri sátt, eins og hann nefndi, milli nokkurn veginn allra stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna að flytja störf út á land, að koma störfum út á land.

Ég verð að segja að ég er ekki alveg jafn viss um að þessi sátt sé fyrir hendi. Ég held að sú sátt sem er fyrir hendi og sé grundvallarmálið í þessu efni sé að vert er að huga að byggð um allt landið. Ég held að á okkar tímum sé spurningin ekki um það að koma upp störfum eða flytja þau frá einu svæði til annars, heldur einmitt það sem þingmaðurinn nefndi, að búa svo um að gróður geti sprottið á hverjum stað í þokkalegu samhengi opinberra stofnana eða útibúa þeirra með einhverjum hætti, fyrirtækja og fræðasetra, sem betur fer hefur fjölgað mjög á þeim tíma, aldarfjórðungi, sem var undir í ræðu hv. þingmanns.

Ég vil spyrja hann um þetta. Sé það þannig að allflestir séu sammála um að koma störfum út á land, er þá tilgangurinn sá að efla byggðina eða er tilgangurinn sá að (Forseti hringir.) koma í hag stjórnsýslunni og fara vel með almannafé?