144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[15:20]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Hv. þingmaður staðhæfir að um það sé almennt samþykki að það sé partur af almennum heimildum ráðherrans að geta tekið ákvörðun um staðsetningu stofnana. Ég var þeirrar skoðunar 1994. Ég var rekinn til baka með það úr þessu púlti af þessu þingi, sem þá var að vísu öðruvísi samansett. Það var alveg skýr niðurstaða þingsins þá, þegar menn komust að einhvers konar samkomulagi um framvindu þess máls, að þingið þyrfti að geta sagt sitt álit á því máli, það var þannig og eftir þá löngu þrautargöngu og þær miklu rökræður sem ég átti þá í komst ég að þeirri niðurstöðu að það væri eðlilegast við svona aðstæður. Og ég er líka þeirrar skoðunar.

Ég vil bara leyfa mér, sem stafar hugsanlega af því að ég er ekki jafn sprenglærður og hv. þingmaður, að efast um að þetta sé skynsamleg og sjálfsögð ráðstöfum. Það getur vel verið að á einhverjum lagaskrifstofum hér í Reykjavík og jafnvel fyrir utan Reykjavík sé þetta eitthvað sem menn taka sem almennan part af veruleikanum. Ekki hér í þessum sölum, ég leyfi mér að efast um það.

Að öðru leyti velti ég fyrir mér: Eiga menn að nálgast alla hluti út frá hátæknilegum, lögfræðilegum, analýtískum aðferðum? Ég meina, eigum við ekki að byggja á reynslu, pólitískri reynslu? Hver er reynslan af þessu bara allra tvö síðustu missiri frá því að þetta mál hófst?

Hvers vegna vill hv. þingmaður koma svona heimild til ráðherra? Við sjáum hvernig er farið með það. Ég meina, þetta skiptir líka máli fyrir líf fólks og það er því sem við þurfum að gefa gaum. Þá segir hv. þingmaður: Ja, það verður að fara eftir reglum hins almenna stjórnsýsluréttar. En það er bara ekki gert. (Forseti hringir.) Við skulum þá segja í þessum lögum hverjar eru hinar málefnalegu forsendur, eins og til dæmis þær að gera þurfi úttekt á afleiðingum, kostnaði o.s.frv., sem var ekki gert í þessu tilviki.