144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[15:24]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður þekkir þetta örugglega miklu betur en ég og kannski hef ég ekki verið nógu lengi í þessum sölum; ég fór að minnsta kosti að hugsa: Hvaða dæmi eru það sem hv. þingmaður vísar til og segir að hafi gengið svo vel? Ég man bara ekkert eftir þeim. Ég man eftir þeim dæmum sem ég kom að, ég man eftir því dæmi sem Guðmundur Bjarnason kom að. Ég man bara ekkert eftir neinum stofnunum sem hafa verið fluttar út á land nema einni sem er á Selfossi, sem gekk mjög vel. (Gripið fram í.) Ja, Landmælingar gengu ekkert vel, þetta var 15 ára stríð. (Gripið fram í.) Já, það getur vel verið. En þetta var 15 ára stríð við starfsmenn og endaði með því að ég held að allir þeirra hafi að endingu verið komnir í önnur beitarhús, þannig að það er ekki hægt að halda þessu fram. En auðvitað gerir hv. þingmaður það af sjálfsöryggi málflytjandans í trausti þess að hann sé að tala hér við mann sem man ekkert. En ég man þetta. Ég man bara eftir einni stofnun þar sem þetta tókst farsællega.

Hv. þingmaður vísar í Hæstaréttardóm um Landmælingar og þar sé talið upp hvaða málefnalegu rök þurfi að vera fyrir hendi. Já — hvaða mark tók hæstv. sjávarútvegsráðherra á þeim? Ekki neitt, þannig að ég gef nú lítið fyrir það. Þess vegna segi ég: Ef það eru reglur eða lög sem ráðherra á að fara eftir, þá er eins gott að það sé stafað ofan í þau lög hverjar grunnforsendurnar þurfi að vera.

Að öðru leyti er hér um að ræða mjög mismunandi nálgun mína og hv. þingmanns. Hv. þingmaður telur að það sé nóg að gefa ráðherranum heimild og svo eigi hann bara að haga sér eins og maður. En reynslan er sú að það er ekki þannig í veruleikanum, ráðherrar haga sér ekkert eins og menn. Alveg eins og í þessu tilviki þegar það er alveg ljóst að mínu viti að þessi ákvörðun er tekin af hæstv. forsætisráðherra beinlínis í ljósi hagsmuna hans innan kjördæmisins. Það er ekkert annað.