144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[16:03]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég var framsögumaður minnihlutaálits frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis og fékk upphaflega til þess 30 mínútur til að flytja mitt mál og í annarri ræðu 15 mínútur og nú eru mér til ráðstöfunar fimm mínútur.

Mér reiknast til að ég þyrfti um klukkutíma til að gera grein fyrir mínum sjónarmiðum til þessa veigamikla máls en það kallaði á tólf ræður, tólf fimm mínútna ræður, það er óhönduglegt að þurfa að kljúfa mál sitt niður í svo smáar einingar.

Hér hefur margt merkilegt komið fram í umræðu sem er að teygjast mjög á í tíma. Ástæðan fyrir því að það tognar úr henni er kannski sú fyrst og fremst að hér fer fram umræða um mál sem er að þróast og þroskast. Það er verið að bregða nýju ljósi á málin, skoða nýjar víddir og viðhorf margra hafa verið að breytast í samræmi við það. Ég tala bara fyrir sjálfan mig, sem þó hef kafað talsvert í þetta mál, og ég ítreka það sem kom fram við umræðuna í gær að ég hefði viljað hafa okkar álit, sem ég verkstýrði, ítarlegra en það var og þá ekki síst með tilliti til 3. gr. frumvarpsins sem tekur á nefndum innan ríkisstjórna, en með þessu frumvarpi er verið að lögfesta þær.

Það er margt fróðlegt sem hefur komið fram við þessa umræðu. Við heyrðum það í morgun eða núna síðdegis, áður en hléið var gert, hvernig fyrrverandi ráðherra og núverandi þingmaður, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, rakti aðkomu sína að flutningnum á ríkisstofnunum og reynslu og lýsti því hvernig hún hefði breytt viðhorfum sínum. Hann vék þar að máli sem ég þekki mjög vel til. Það var tillaga sem fram kom í ráðherratíð hans sem umhverfisráðherra að flytja Landmælingar frá Reykjavík til Akraness og hann sagðist hafa gefist upp í því máli. Þar er talað af óþarfa hógværð, tel ég vera, vegna þess að ástæðan fyrir því að fallið var frá þessum flutningum af hálfu ráðherrans voru rök sem færð voru á borðið af hálfu stéttarfélaganna. Ég sat fundi í ráðuneytinu, eða hvort þeir voru haldnir í húsakynnum Landmælinga, með öllum starfsmönnum og ráðherra og hans ráðgjöfum þar sem farið var yfir málið og menn ræddu sig síðan til niðurstöðu. Hún varð sú að fallið var frá því, alla vega að sinni, að flytja stofnunina með þeim hætti sem tillaga hafði verið lögð fram um.

Önnur ástæða fyrir því að það hefur tognað úr þessari umræðu er að menn vilja vanda til verka. Það skiptir máli hvað við segjum í ræðustól um frumvörp af þessu tagi. Það skiptir kannski minna máli hvað ég segi sem minnihlutamaður í málinu en framsögumaður meiri hlutans, hv. þm. Brynjar Níelsson, vegna þess að greinargerðir með frumvörpum og það sem fram kemur af hálfu flytjenda málsins í þingsal er iðulega notað sem lögskýringargagn. Hér var farið yfir það í umræðunni af hálfu formælenda meirihlutaálitsins, hv. þm. Brynjars Níelssonar, að við yrðum að horfa til aðstæðna þegar við túlkuðum lagagreinina um valdheimildir til ráðherra að flytja stofnanir, og hann fór yfir þetta nokkrum orðum. Og það skiptir máli að þroska þessa umræðu líka. En ég heyrði ekki betur á hans máli en að hann hefði efasemdir um að þetta væri nógu rækilega hnýtt í greinargerð með frumvarpinu eins og það stendur núna, sem væri ástæða til þess að taka málið inn og skoða það alveg frá grunni.

Ég vil líka ræða um sveigjanleikann (Forseti hringir.) í opinberri stjórnsýslu og ýmsar hliðar sem á því máli eru.