144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[16:17]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir ræðuna og tek undir með honum að ég held að það skipti miklu máli þegar verið er að ræða um Stjórnarráð Íslands að við getum búið til umhverfi sem er sveigjanlegt, en það þarf líka að vera traust og festa í kerfinu þannig að menn viti að hverju þeir ganga og leikreglur séu skýrar.

Ég vil líka taka undir með hv. þingmanni að umræðan hér skiptir máli, þ.e. túlkun á hvað þingmenn og þeir sem hugsanlega koma að afgreiðslu málsins hafa sagt um málið.

Það er eitt sem mig langar að nefna við hv. þingmann. Við vorum nú báðir ráðherrar í síðustu ríkisstjórn og þá var tekið upp og unnið með hugtakið ráðherranefndir. Það var opið þannig að skipa átti ráðherranefnd um ákveðin mál. Tilraunin var fólgin fyrst og fremst í því að reyna að formgera með einhverjum hætti hvernig fjallað væri um mál þannig að fyrir lægju upplýsingar, minnisblöð og slíkt, að menn gætu ekki komið með tillögur og annað í ríkisstjórn nema þá með formlegum, skriflegum hætti, svo hægt væri að rekja hvernig málið hefði gengið fyrir sig ef á þyrfti að halda síðar.

En hér eru teknar út tvær nefndir, þ.e. ráðherranefndir, annars vegar um ríkisfjármál og hins vegar um efnahagsmál. Þarna er náttúrlega verið að taka toppana úr ríkisstjórninni, þ.e. annars vegar forsætisráðherra, hins vegar efnahags- og fjármálaráðherra, þeir eiga að leiða þessar nefndir eða eru yfir þeim. Spurningin er: Getur þetta hugsanlega haft áhrif á hvernig unnið er hvað varðar aðrar nefndir, að þarna sé búið að útiloka það með einhverjum hætti, ég geri mér grein fyrir að textinn geri það ekki beint, en það getur verið ákveðin hætta í því?

Í öðru lagi. Það sem maður óttaðist á sínum tíma og við þurftum að fjalla um það sérstaklega, þ.e. að sum mál séu ekki rædd í ríkisstjórninni heldur bara í ráðherranefnd, fjallað um þau, og síðan þeir aðrir sem eru í ríkisstjórninni viti ekkert um málin af því að ekki er talin ástæða til að fjalla um þau, búið sé að fjalla um þau í ráðherranefndum viðkomandi málaflokka.