144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[16:19]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að taka undir með hv. þingmanni þegar hann vísar til mikilvægis þess að stuðla að trausti og festu í stjórnsýslunni og þegar við hreyfum okkur þar með breytingum á lögum þurfum við að stíga varlega til jarðar.

Í öðru lagi tekur hv. þingmaður undir það sjónarmið að umræðan hér skiptir miklu máli vegna þess að umræðan er notuð sem lögskýringargagn. Ég ítreka það sem ég segi, það kann að vera síður mikilvægt en það sem formælendur fyrir frumvarpinu hafa, en á endanum erum við með lög og síðan skilning Alþingis á þeim lögum, sem erum við, sem er þingið. Við erum öll hluti af þinginu og ættum náttúrlega að vera jafn rétthá hvað það snertir.

Varðandi ráðherranefndir þá er ég sammála því sem mér finnst liggja í hugleiðingum hv. þingmanns að reynslan af ráðherranefndunum, þótt markmiðið hafi verið að reyna að stuðla að aukinni hagkvæmni o.s.frv. og markvissari vinnubrögðum, þótti mér ekki vera góð og ekki til þess fallin að auka á gagnsæi. Að auki er núna í lagabreytingunum þar sem gert er ráð fyrir að lögfesta slíkar nefndir, þær voru það ekki í núgildandi lögum, þá skortir sjálfan grundvöllinn og útskýringar á honum. Við erum ekki með fjölskipað stjórnvald en erum að reyna að taka ákvarðanir í litlum einingum þvert á það sem stjórnskipanin kveður á um. Þetta er óljóst í lagatextanum og í skýringum með lögunum. Ég hygg að það væri mikilvægt að taka málið og skoða þennan grundvöll miklu betur en við höfum gert.