144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[16:26]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frumvarp til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands. Það var svolítið merkilegt að hlusta hér á tvo fyrrverandi ráðherra frá síðasta kjörtímabili standa vörð um E-flokkinn, embættismannaflokkinn, sem aldrei hefur verið kosinn; ég var mjög fegin að hafa setið hér í þingsal og hlustað á skoðanir þeirra hv. þingmanna.

Þetta frumvarp er engin árás á opinbera starfsmenn eins og fram hefur komið í máli hv. þm. Ögmundar Jónassonar. Hann fór yfir þá sjálfsögðu kröfu fjárveitingavaldsins að ráðuneyti, eins og aðrar opinberar stofnanir og opinbera kerfið, þyrftu að draga saman seglin á fyrstu tveimur árum í tíð þessarar ríkisstjórnar og lýsti því hreinlega eins og hörmungum.

Virðulegi forseti. Ég kann ekki við svona málflutning því að ég veit það, og landsmenn vita það, að Samfylkingin og Vinstri grænir standa fyrir það eitt að þenja út ríkið og fjölga opinberum starfsmönnum. Nú er svo komið að ríkið er orðið það stórt að ríkistekjur duga tæpast til að halda því uppi, og þá er ég að tala um rekstur ríkisins. Ég er ekki að tala um þá forgangsröðun sem ríkisstjórnin hefur sett sér í heilbrigðismálum, málefnum heimilanna, menntamálum og samgöngumálum. Kerfið er orðið það stórt að tæpast er hægt að sinna forgangsmálum ríkisstjórnarinnar. En það kemur kannski ekki mjög á óvart að þetta frumvarp skuli notað til að færa fram þennan málflutning.

Við skulum heldur ekki gleyma því, út af því að nú standa yfir miklar kjaradeilur, að opinberir starfsmenn hafa töluvert betri réttarbætur og stöðu í sínu starfi en launþegar á almennum vinnumarkaði. Það skal alveg viðurkennt. Hér skal í andsvörum minnst á óöryggi ríkisstarfsmanna í starfi sem er hverfandi miðað við það sem gerist á almennum vinnumarkaði. Þegar fyrirtæki eru farin að reka sig með tapi þá er eitt í boði, það er að fækka starfsfólki og hagræða í rekstri. Og ekki hefur verið barist fyrir því hjá verkalýðshreyfingunni að vinnuveitendur þurfi að skýra hvers vegna starfsmanni er sagt upp. Það ákvæði var meira að segja tekið út, það er hægt að reka og ráða fólk á almenna markaðinum án þess að hafa fyrir því nokkrar málefnalegar ástæður. En öðru máli gegnir um opinbera starfsmenn sem þurfa helst að brjóta af sér, sama brot, þrisvar sinnum þannig að hægt sé að hreyfa við viðkomandi. Ég tel að sú hræðsla sem birtist í síðustu ræðu sé algjörlega óþörf og komi þessu frumvarpi og málflutningi í þessu nánast ekki neitt við svo að það sé sagt í byrjun.

Eins og vitað er þá er enn verið að laga og bæta lög um Stjórnarráðið. Ný heildarlög um Stjórnarráðið tóku gildi í september 2011; þetta sýnir nú kannski nú hve brýn þörf er á betri og vandaðri lagasetningu hér í þinginu þannig að þingmenn þurfi ekki sífellt að vera með sömu málin undir og vera sífellt að opna þá lagabálka sem talið er að séu frágengnir. En nú er árið 2015 og hér er komið inn með frumvarp í 10 greinum þannig að ég legg aftur áherslu á að við þingið verði stofnuð lagaskrifstofa Alþingis svo að vinna okkar þingmanna verði markvissari og ekki sé sífellt verið að spóla í sömu hjólförunum því síðasta kjörtímabil var allt lagt undir nákvæmlega í þessum lagabálki. Hér er þetta því enn á ný komið inn.

Ég fagna því sem stendur í 3. gr. þar sem verið er að útvíkka þetta með ráðherranefndir, að ávallt skuli vera starfandi ráðherranefnd um ríkisfjármál og ráðherranefnd um efnahagsmál. Ég fagna því mjög því að þarna kemur skýrt fram ábyrgðin sem fylgir því að sitja í ríkisstjórn og þá er verið að hafa fleiri ráðherra upplýsta um rekstur ríkisins en einungis fjármálaráðherra. Ég tel að þetta sé mjög mikilvægt, sérstaklega í ljósi þess hvað gerðist í bankahruninu þegar viðskiptaráðherra var til dæmis haldið fyrir utan allar ákvarðanatökur og tekið af honum ákveðið vald þegar bankarnir hrundu. Að vísu var starfandi ráðherranefnd þá en ég hef farið yfir það áður í ræðum að hún var mjög óvirk. Þó að hún hafi fundað var ábyrgðinni fyrir rest komið á herðar eins aðila; þeir ráðherrar sem þá störfuðu úr báðum flokkum áttu að bera meiri ábyrgð þó að aldrei hafi verið um það talað. Það er gleðilegt að hér sé verið að kveða á um þetta. Og hér stendur áfram að forsætisráðherra og sá ráðherra sem fer með málefni hagstjórnar og fjármálastöðugleika eigi fast sæti í ráðherranefnd um efnahagsmál. Þá er verið að tryggja að þarna sé skýr sýn og sama sýn yfir málaflokkinn; og svo eru það auðvitað aðrir ráðherrar.

Í greinargerð um 3. gr. er ágætlega farið yfir þetta, og litið til Danmerkur hvað form varðar. Ég er mjög ánægð með það því að í Danmörku er mikilvægur samráðsvettvangur fyrir ráðherra og ráðuneyti og ráðherranefndir í mismunandi formi eiga sér langa sögu og þó einkum ráðherranefnd sem fjallað hefur um ríkisfjármál, undirbúning fjárlaga og fjáraukalaga, framkvæmd fjárlaga og fleira í þeim dúr. Við eigum ekki sífellt að vera að finna upp hjólið. Ég hef mjög talað fyrir því, eftir að ég settist á þing, að við mundum líta til Norðurlandanna varðandi almenna lagasetningu og því er ég mjög hrifin af því þegar við sækjum þangað góða lagasetningu og atriði sem nýtast vel í íslensku samfélagi. Það hefur löngum sannað sig að séríslenskar lausnir og leiðir eru kannski ekki þær sem hafa reynst best; við þekkjum það gjörla.

Í 1. gr. er farið fram með það sjálfsagða ákvæði að ráðherra eigi að fá þær heimildir að kveða á um aðsetur stofnana sem undir hann heyra. Hér er verið að lögfesta það sem kom fram í hæstaréttardómi, svokallaður Landmælingadómur, að það þarf að skjóta undir slíkt lagastoð því að það fer langtum betur á því að hafa þetta í lögum um Stjórnarráðið í stað þess að þurfa að fara með sérlög í gegnum þingið ákveði ráðherra flutning stofnana. Þá er það til og neglt í lög að þetta sé heimilt. Og þá er ég að tala um að flytja stofnanir utan af landi til Reykjavíkur eða frá Reykjavík út á land. Ég tek hér dæmi af einni stofnun sem ég man eftir sem hefur aðsetur á Akureyri, Jafnréttisstofa. Væri þetta orðið að lögum gæti félagsmálaráðherra flutt hana hingað á höfuðborgarsvæðið án þess að þurfa að fara með sérlög um það í gegnum þingið.

Í ræðum hefur verið talað um að þekking sé ekki til staðar úti á landi til að sinna þessum ríkisstofnunum. Ég vísa því á bug. Mér finnst verið að tala niður til landsbyggðarinnar. Það er eins og ekki sé til staðar nægileg menntun hjá fólki sem býr úti á landi. Mér finnst það höfuðborgarhroki og ég tek ekki þátt í honum; ég hef farið víða um land og þar starfar mjög gott fólk. Stjórnarandstaðan hefur hnýtt þetta mjög við fiskistofumálið. Ég ætla svo sem ekkert að fara neitt sérstaklega yfir það. Það kemur kannski til af því að Fiskistofa er eina stofnunin sem rætt hefur verið um að flytja og hefur fjárheimildir til að flytja til Akureyrar. En ég sé þetta í víðara samhengi, ég sé þetta ekki svo þröngt. Ég ætla ekki að slá skjaldborg um eina stofnun því að ég sé þetta það vítt; það er algert þjóðþrifamál að koma þessu í gegn og að þetta verði að lögum til framtíðar. Það er alveg sama hvaða flokkur situr í ríkisstjórn, við skulum ekki gleyma því, þá er þessi heimild til staðar fyrir ráðherra, sýnist honum það vera til hagsbóta fyrir ríkið og jafnvel sparnaðar, að staðsetja stofnanir úti á landi eða í höfuðborginni. Svo er sú krafa uppi, eins og við vitum, að sífellt er verið að setja á stofn nýjar stofnanir og þetta er ekki síst gott í ljósi þess að þegar ný stofnun er sett á laggirnar þá er hægt að velja henni stað í hvaða landshluta sem er.

Farið er yfir heimild ráðherra til flutnings stofnana í nefndaráliti með breytingartillögum frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem ég skrifa undir ásamt framsögumanni álitsins hv. þm. Brynjari Níelssyni. Það er mjög skýrt hvernig þetta er. Fyrst er fjallað um það hverjir komu á fundi nefndarinnar og hvað nefndin fjallaði sérstaklega um. Síðan segir, með leyfi forseta:

„Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að heimild ráðherra til að ákveða staðsetningu stofnana sem undir hann heyra sé eðlilegur hluti af stjórnunarheimildum ráðherra. Í kjölfar dóms Hæstaréttar frá 18. desember 1998 um að flutningur Landmælinga Íslands til Akraness hafi verið ólögmætur var lögfest almenn heimild ráðherra til flutnings stofnana sem undir hann heyra þótt tilteknar stofnanir skyldu vera í Reykjavík. Fram kemur að við síðustu endurskoðun á lögunum hafi ákvæðið fallið brott en ekki getið um það í athugasemdum við frumvarpið og Alþingi hafi því ekki getað tekið afstöðu til breytingarinnar.“

Ég fagna þessu frumvarpi. Það væri óskandi að það verði að lögum áður en þing fer í sumarfrí til að styrkja grunninn undir rekstur ríkisins og að þessar valdheimildir varðandi aðsetur stofnana verði að veruleika. Hér eru svo fleiri greinar sem er verið að breyta, að vísu eru það bara orðalagsbreytingar, og svo eru það fleiri lagabætur á lögunum um Stjórnarráðið, sem tóku gildi í september 2011, sem líka er verið að lögleiða með þessu frumvarpi. Talað er um það í frumvarpinu sjálfu, í greinargerð, að þetta sé gert út af því að nú sé ákveðin reynsla komin á þau lög þannig að verið sé að laga þá hnökra sem hafa komið fram við framkvæmd þeirra laga.

Ég hef lokið máli mínu.