144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[16:45]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Það sem mig langaði til að spyrja hann um, því að hann er á meirihlutaáliti í þessu máli, er: Hvers vegna er ekki að finna breytingartillögu frá hv. þingmanni á kaflanum um ráðherranefndir? Ég hef verið að lesa ræður hv. þingmanns frá því á síðasta kjörtímabili og þar hafði hv. þingmaður mjög ákveðnar skoðanir á ráðherranefndum og var frekar andvíg þeim. Er það reynslan að þær hafi reynst vel? Mig langar að spyrja hv. þingmann að þessu.

Svo langar mig til að spyrja hv. þingmann vegna þess að hann hafði mikinn áhuga á og áhyggjur af foringjaræði á síðasta kjörtímabili og sagði þegar lög um Stjórnarráðið voru sett, með leyfi forseta:

„En þetta er akkúrat dæmi um það sem maður hefur lesið í fræðibókum og í sögu þjóða að þegar einstaklingar koma til valda byrja þeir alltaf á að sækja sér vald. Við þekkjum hörmungarsögu úr Evrópu um þetta. Að sækja sér vald, helst að verða einráður og geta svo stjórnað og skipað fyrir úr sæti sínu. Þetta skelfir mig svolítið því þetta er svo óíslenskt. Þetta skelfir mig að því leyti að ég hélt að við ætluðum öll að læra af hruninu en svo er ekki. Hér er verið að leggja til enn frekara foringjaræði en var fyrir hrun.“

Mig langar að spyrja hv. þingmann vegna þess að hér er verið að kveða með mjög ótvíræðum hætti um heimild ráðherra til að flytja stofnanir án þess að það komi til umtals inni á þingi. Er þetta ekki foringjaræði? Er þetta í lagi og er þetta íslenskara en það sem var á síðasta kjörtímabili?