144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[16:52]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það eru athyglisverð orðaskipti um foringjaræði í ljósi þess að framarlega í ræðu sinni var hv. þingmaður með hugleiðingar um að hér hefðu verið fluttar óþarfar ræður sem kæmu málinu ekkert við. Það er erfitt að áætla annað en hv. þingmaður sé að bjóða sig fram til að ákveða það fyrir hönd annarra þingmanna hvað þeir eigi að tala um og hvað þeir megi segja. Það er kannski pínulítill vottur af foringjaræði ef hv. þm. Vigdís Hauksdóttir er að bjóðast til að taka það að sér að ákveða hvað aðrir þingmenn, 62 að tölu þá, eigi að segja. Eða heyrði ég það ekki rétt? Var ekki hv. þingmaður að bjóða sig fram í það hlutverk?

Í öðru lagi vil ég spyrja hv. þingmann um það sem hér á að leggja til, þ.e. að fella niður sjálfstæða nefnd um siðferðisleg viðmið innan Stjórnarráðsins, svonefnda sameiningarnefnd, og færa það hlutverk til forsætisráðuneytisins, að því marki sem því verður þá eitthvað áfram sinnt. Nú er vandinn sá að forsætisráðuneytið er í nokkrum ógöngum með þetta mál hjá sér, einmitt spurninguna um siðareglur og meðferð þeirra mála. Það hefur leitt til bréfaskrifta frá umboðsmanni Alþingis til forsætisráðherra þar sem umboðsmaður er að reyna að varpa ljósi á það hvort yfir höfuð séu í gildi siðareglur í tíð þessarar ríkisstjórnar og hefur náttúrlega þótt nokkuð spaugilegt. En finnst þá hv. þingmanni fara vel á því, það vera heppilegt, að fela akkúrat því ráðuneyti þetta hlutverk við þessar aðstæður? Má ekki álykta af þessu og bréfaskriftum umboðsmanns til forsætisráðherra að forsætisráðuneytið þyrfti kannski bara sjálft að taka sér tak í þessum efnum innan Stjórnarráðsins og veitti ekkert af því að hafa nefnd sérfróðra aðila sér til stuðnings um þau mál? Telur hv. þingmaður ekki að það sé betra fyrirkomulag sem forsætisnefnd Alþingis, sameinuð, og formenn allra þingflokka hér leggja til í sambandi við siðareglur alþingismanna, þ.e. að það sé einmitt fagleg sjálfstæð óháð nefnd sem hafi hlutverki að gegna til að vega og meta hvort siðareglur hafi verið brotnar?