144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[17:13]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Mér finnst það frábær samlíking hjá hv. þingmanni að líkja þessari nefnd við slökkvitæki. Við vonumst náttúrlega alla okkar tíð til þess að við þurfum ekki að grípa til þess og það sama á við í mínum huga með þessa nefnd. En ég er sammála hv. þingmanni um að hún þarf að vera til staðar.

Í nefndarvinnunni spurði ég gest sem kom frá Siðfræðistofnun Háskóla Íslands þeirrar almennu spurningar hvort ekki væri betra að þriðji aðili, utanaðkomandi aðili, dæmdi og færi með svona mál frekar en að það væri rekið í forsætisráðuneytinu í þessu tilfelli. Svarið sem ég fékk var á þann veg að í flestum tilfellum þætti það betra með slíkar reglur að þriðji aðili kæmi að málum. En það sem gestinum fannst skorta í þetta var að ekkert væri fjallað um það hvernig fara eigi með þetta inni í forsætisráðuneytinu. Forsætisráðuneytið á að gera þetta og gesturinn sagði: Kannski ætla þeir að leita til einhverra, kannski ætla þeir að gera eitthvað.

Mér finnst það stór galli við frumvarpið að þar er bara talað um að þessi mál verði leyst í forsætisráðuneytinu og síðan ekki söguna meir. Jafnvel þó að færa eigi þetta inn í forsætisráðuneytið, þarf þá ekki að gera kröfu um nánari lýsingu á því hvernig eigi að starfa með þetta í því háa ráðuneyti?