144. löggjafarþing — 119. fundur,  4. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[17:34]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Þetta mál, umbúnaðurinn, er í kringum þá ákvörðun hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að flytja Fiskistofu til Akureyrar. Eins og fleiri hafa nefnt hefur síðan verið ákveðið að koma með fleiri atriði inn í þetta mál líka.

Mig langar aðeins að fara yfir það hve mikilvægt ég tel að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni þó að ég sé ekki fylgjandi umræddri 1. gr., þ.e. að það sé eingöngu á valdi ráðherra hvernig það er framkvæmt. Ég undirstrika hve brýnt ég tel að flytja verkefni og fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni, ekki bara á þéttbýlustu stöðunum heldur ekki síður í fámennari byggðum, þar sem því verður komið við að vinna verkefni, þar sem gott starfsfólk og öruggar háhraðatengingar skipta mestu máli en ekki staðsetning. Reynslan af staðsetningu opinberra starfa úti um land hefur fyrir löngu sýnt fram á að slíkt stenst kröfur sem gerðar eru um fagleg vinnubrögð og gott vinnuumhverfi og traust vinnuafl er að sjálfsögðu líka til staðar úti á landi.

Umfang hins opinbera hefur vaxið mjög á undanförnum 20 til 30 árum og fjölgun opinberra starfa hefur fyrst og fremst orðið á höfuðborgarsvæðinu. Þó að tekist hafi að staðsetja nokkrar opinberar stofnanir úti á landi á liðnum árum þá er það eilíf barátta að halda þeim störfum áfram í heimabyggð. Ég held að allir landsbyggðarþingmenn þekki í gegnum tíðina þá baráttu sem er við hver fjárlög við að verja starfsemi á landsbyggðinni þar sem oftar en ekki er um að ræða fá stöðugildi sem mega ekki við neinum niðurskurði.

Það hefur verið sýnt fram á það í rannsóknum að mikið misræmi er í opinberum útgjöldum og skattheimtu eftir landsvæðum en ég ætla ekki að ætla mönnum það að það hafi verið markmið í sjálfu sér. Landsbyggðin hefur beðið skaða af því en höfuðborgarsvæðið hefur notið þess í gegnum tíðina. Það eru bara staðreyndir. Færð hafa verið rök fyrir því að viðskipti landsbyggðarinnar á höfuðborgarsvæðinu séu hlutfallslega meiri en viðskipti höfuðborgarsvæðisins á landsbyggðinni. Í því samhengi er eðlilegt að líta til frekari flutnings opinberra starfa út á land til að jafna það efnahagslega misræmi sem er staðreynd og hið opinbera ber líka ábyrgð á með stjórnvaldsákvörðunum sínum í gegnum tíðina.

Ég tel að stjórnvöld verði að vinna eftir skýrt markaðri stefnu í flutningi opinberra starfa úti á land, að þar samræmi ráðuneyti og opinberar stofnanir vinnu sína og gangi í takt, að kynna verði með eðlilegum fyrirvara flutning á starfsemi ríkisins á milli landsvæða, gæta vel að mannlega þættinum og réttindum starfsmanna sem hlut eiga að máli og líta sérstaklega til nýrra verkefna og starfa sem verða til hjá hinu opinbera. Að sjálfsögðu á að tryggja aðkomu Alþingis að þeirri stefnumótunarvinnu og að fjárlögin endurspegli þann vilja. En allur undirbúningur þarf að vera vandaður og landið kortlagt, hvar störfum, verkefnum og starfsemi verður best fyrir komið. Þá tel ég að ekki síst eigi að horfa til þeirra svæða sem átt hafa undir högg að sækja undanfarin ár og þurfa virkilega á fjölbreytni að halda og þar eru góðar háhraðatengingar lykilatriði.

Það má nefna nokkur verkefni sem flust hafa til landsbyggðarinnar í gegnum árin og hefur tekist vel til með, eins og Byggðastofnun á Sauðárkróki, Skógræktina á Héraði, Landmælingar Íslands á Akranesi, Greiðslustofu Atvinnuleysistryggingasjóðs á Skagaströnd, skrifstofu Fæðingarorlofssjóðs á Hvammstanga og Jafnréttisstofu á Akureyri, Fjölmenningasetrið á Ísafirði — reyndar er verið að stokka upp og skoða þessar tvær stofnanir og einhverjar breytingar verða þar á ferðinni.

Ég get líka nefnt dæmi um verkefni eins og Innheimtustofnun sveitarfélaga, sem var sett niður á Flateyri, en ég tel að hafi kannski ekki gengið upp vegna lélegra háhraðatenginga á Flateyri á þeim tíma. Það verkefni var fært yfir á Ísafjörð. Þetta er ekkert einsdæmi og skortur á öflugum gagnaflutningi á landsbyggðinni hamlar því miður oftar en ekki atvinnuuppbyggingu. Því miður hafa opinberar stofnanir eins og til dæmis Fiskistofa, sem hefur verið mikið til umræðu hér, verið að hringla með störf sín í útibúum úti um land í skjóli breytinga sem orðið hefur til þess að faglært fólk hefur flust í burtu af þessum stöðum. Ég get líka nefnt stofnanir þar sem fækkun starfa hefur verið úti um land á undanförnum missirum eins og hjá Isavia og Matís.

Það er ansi auðvelt fyrir pólitíkina og stjórnvöld að skella í lás þegar um litlar starfsstöðvar er að ræða og því miður eru mörg dæmi um óvönduð vinnubrögð þar. Alþingi hefur oft ekki neitt svigrúm til að hafa afskipti af þeim málum fyrr en hlutirnir eru frágengnir og erfitt að vinda ofan af því. Ég tel að ekki eigi að kynda undir elda á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins með óvönduðum vinnubrögðum við flutning starfa og starfsemi úti á landi heldur þurfi að vanda vel til verka og að sjálfsögðu þarf að sýna það í fjárlögum að menn vilji efla opinbera starfsemi úti um land.

Því miður báru síðustu fjárlög ekki þess merki að það væri viljinn. Það var gífurlegur niðurskurður í mörgum verkefnum á landsbyggðinni, eins og sóknaráætlun landshlutanna er gleggsta dæmið um. Þessi lagasetning um aukið ráðherraræði eykur bara togstreituna á milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar, ég tel það vera þannig. Ég undirstrika það að landsbyggðin þarf á fjölbreyttari atvinnutækifærum að halda og það eru sameiginlegir hagsmunir allra landsmanna að vel takist til með flutning opinberra starfa og uppbyggingu atvinnustarfsemi á landsbyggðinni því að landsbyggðin er einn stærsti viðskiptavinur höfuðborgarsvæðisins, það vill nú stundum gleymast í umræðunni.

Ég tel að það eigi að vera hægt að lagfæra 1. gr., sem hefur mest verið hér í umræðunni, þetta aukna ráðherraræði sem er hættulegt. Við eigum að efla lýðræðislega aðkomu að svona stórum málum, þau eiga að fá góða umfjöllun hér á Alþingi. Við höfum horft upp á það sem hæstv. menntamálaráðherra hefur verið að undirbúa vítt og breitt um landið, sem snýr að menntastofnunum, sem hefur verið á mjög varhugaverðri braut, að ég tel. Við megum ekki fara að vinna þannig að framkvæmdarvaldið verði sterkara á kostnað löggjafans. Það er mjög hættuleg þróun og ég tel að það verði að lagfæra 1. gr. ásamt ýmsu öðru í frumvarpinu.