144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

störf þingsins.

[11:03]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Verkfall ýmissa hópa í velferðarþjónustunni hefur nú staðið í á níundu viku. Ég nefni geislafræðinga, lífeindafræðinga, náttúrufræðinga, ég nefni ljósmæður og nú hafa hjúkrunarfræðingar bæst í hópinn. Þetta er grafalvarleg staða fyrir þá þjónustu sem þetta fólk sinnir og fyrir það sjálft og fjölskyldur þess.

Nú heyrast gamalkunnar vangaveltur um hvað valdi því að deilan er hlaupin í þann hnút sem raun ber vitni. Menn nefna brenglað samningaferli, viljaleysi launafólksins til samninga, en niðurstaðan er alltaf hin sama, að verkföll séu af hinu illa og í samræmi við það er reynt að grafa undan verkfallsréttinum. Verkfallsrétturinn og verkföll eru neyðarúrræði. En þau eru jafnframt öryggisventill í lýðræðisþjóðfélagi.

Fólk sem hefur verið frá vinnu og launalaust í á níundu viku er ekki að gera slíkt að gamni sínu. Það er að segja eins skýrt og hægt er að segja að það sé ekki reiðubúið að sinna störfum sínum, sinna þeirri þjónustu sem það hefur tekist á herðar, á þeim kjörum sem í boði eru. Þetta verður ríkisvaldið, þetta verður fjármálaráðuneytið, viðsemjandi þessara hópa, að skilja og setjast niður og ná samningum sem sátt getur orðið um og tryggir friðinn.

Ég spyr: Getur það verið að ríkisstjórn sem leggur fram frumvarp hér á Alþingi um að tryggja ofurtekjufólki í fjármálaheiminum bónusa ofan á ofurlaun sín, getur verið að slík ríkisstjórn ráðgeri lög á almennt launafólk í stað þess að setjast niður og ná samningum við það?