144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

störf þingsins.

[11:08]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hv. þm Ragnheiður Ríkharðsdóttir, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, varpaði fram þeirri áhugaverðu tillögu að eingöngu konur mundu skipa Alþingi, ef ég tók rétt eftir, jafnvel í tvö ár. Nú er það ekki ný hugsun að okkar málum væri jafnvel betur komið ef konur réðu meiru um hlutina. Ég minnist þess að á mikilli kreppuráðstefnu í París síðsumars 2009 á vegum OECD þegar heimurinn sleikti sárin eftir hrun nýfrjálshyggjukapítalismans, þá setti ég fram skylda hugmynd við mismikinn fögnuð, þetta var auðvitað mikil karlasamkunda. Ég lagði til að konur mundu stjórna heiminum í 50 ár og við sæjum til hvort ekki yrði friðvænlegra á hnettinum og meiri ábyrgð sýnd í efnahagsmálum ef konur fengju að ráða ferðinni. Ég held að það hefði verið athyglisverð tilraun.

En aftur að hugmynd hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur sem ég tek ekki sem gríni heldur sem alvöru og sem skilaboðum. Ég hef að minnsta kosti uppástungu um hvernig við gætum byrjað og hún er sú að við karlar á þingi og varamenn okkar svo langt sem til þarf víkjum sæti þannig að Alþingi verði eingöngu skipað konum á hátíðarfundinum 19. júní næstkomandi. Það væri vel við hæfi. Nógu oft og lengi hefur Alþingi eingöngu verið skipað körlum. Ég hygg að það mundi vekja nokkra athygli jafnvel út fyrir landsteinana ef heilt þjóðþing kæmi saman skipað eingöngu konum og það kjörnum konum, vegna þess að þetta mundi einfaldlega gerast með því að konur kæmu inn sem varamenn fyrir þá karla sem vikju. Tilbúinn er ég og skora á kollega mína sama kyns. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)