144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

störf þingsins.

[11:17]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Í frétt í Morgunblaðinu í gær var talað um fækkun tilboða í verklegar framkvæmdir á vegum Vegagerðarinnar. Það er frétt sem kemur því miður ekki á óvart. Vegagerðin hefur þurft að hafna óraunhæfum tilboðum vegna þess að þeim fækkar sem bjóða í og þeir eru jafnvel bara einn eða tveir sem hafa boðið í verk. Verktakabransinn hefur hrunið eftir hið alvarlega hrun sem hér varð. Hver er ástæðan? Fjöldi mannorðsmorða var framinn á saklausum einstaklingum og fyrirtækjum í verktakabransanum eftir hrunið. Tæki voru tekin af einstaklingum og seld á hrakvirði og gengið var nærri fjölskyldum og einstaklingum. Afleiðingarnar eru að bankar og fjármálastofnanir og opinberir aðilar elta saklaust fólk næstu 10–15 árin vegna aðstæðna sem fólk hafði ekkert með það að gera að koma sér í. Kennitölur þeirra eru komnar á svartan lista.

Virðulegi forseti. Er ekki kominn tími til að hreinsa mannorð þessara einstaklinga og fyrirtækja og gera það fólk gilt í samfélaginu? Hrunið má ekki fylgja þessu fólki um ókomin ár. Jafnvel bankar hafa skipt um kennitölur og það hefur engin áhrif á ógnarhagnað þeirra.

Virðulegi forseti. Ég hvet okkur þingmenn og ráðherra til að beita okkur svo að þessir einstaklingar og fjölskyldur þeirra losni undan skugga hrunsins sem það fólk átti engan þátt í að skapa og þrautaganga þess haldi ekki áfram næstu 10–15 ár.