144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

störf þingsins.

[11:19]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla að ræða þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir. Við sem hér störfum í umboði þjóðarinnar vinnum hart í umræðu í þingsal og í nefndum og við erum einbeitt að vinna að mikilvægum málum og búin að sprengja af okkur upphaflega starfsáætlun þingsins. Á sama tíma hafa staðið yfir kjarasamningar og vinna við áætlun um losun gjaldeyrishafta er á lokametrum þess að koma inn í þingið til að hefja það sem kalla má framkvæmdafasa þeirrar áætlunar.

Fyrir viku voru undirritaðir kjarasamningar á almenna vinnumarkaðnum sem ná til ársins 2018, samningar sem ná til um 70 þús. launamanna. Þar náðust meðal annars fram þau markmið að lægstu launin eru hækkuð mest, verða 300 þús. kr., og hlutfallsleg hækkun er síðan stiglækkandi upp launastigann.

Framlag hæstv. ríkisstjórnar vó þungt til þess að ná þessum meginmarkmiðum, en hún lagði til viðamiklar aðgerðir, m.a. í velferðar- og húsnæðismálum, með auknu framboði af félagslegu húsnæði og aðgerðir til handa efnaminni leigjendum, og í skattamálum með breytingum á tekjuskatti til aukningar á ráðstöfunartekjum og heildarlækkunaráhrifum upp á 16 milljarða.

Hæstv. ríkisstjórn hefur lagt mikla áherslu á þá mikilvægu áskorun sem við stöndum frammi fyrir, að viðhalda stöðugleika. Í framlagi til kjarasamninga var lögð áhersla á að bæta samspil ríkisfjármála, peningastefnu og vinnumarkaðar með stofnun þjóðhagsráðs. Við losun gjaldeyrishafta er rík áhersla á hagsmuni almennings, að losun hafta raski ekki stöðugleikanum. Það er ljóst að allir aðilar lögðu verulega af mörkum til að ná markmiðum kjarasamninga og það mun reyna á alla aðila, allt þjóðfélagið, fyrirtækin og heimilin og hið opinbera, að tryggja áframhaldandi stöðugleika. Það er okkar stærsta áskorun.