144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

störf þingsins.

[11:21]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Við lok samnings á almennum vinnumarkaði eða hluta hans kom ríkisstjórnin að og lagði meðal annars fram tillögu um þjóðhagsráð. Ég ætla rétt að vona, virðulegur forseti, að þetta þjóðhagsráð fari meðal annars yfir það með hvaða hætti við getum hagað samningsgerð á almennum vinnumarkaði og samningsgerð hjá opinberum starfsmönnum þannig að við fáum, eins og hér hefur verið rætt, sambærilegt módel kjarasamningsgerðar og tíðkast annars staðar á Norðurlöndum og það verði forgangsverkefni þjóðhagsráðs að ráðast í slíkt.

Þar að auki, virðulegur forseti, langar mig að nefna, þótt það sé sárt fyrir vinstri menn, að það voru jafnt aðilar vinnumarkaðarins sem og verkalýðshreyfingin og Samtök atvinnulífsins sem sögðu já við einföldun skattkerfis eins og boðið var af hálfu ríkisstjórnarinnar. Verkalýðshreyfingin og Samtök atvinnulífsins sögðu já við slíku vegna þess að þeir aðilar treysta því og trúa að það sé til hagsbóta fyrir þá sem þeir eru að semja fyrir.

Einnig er í vinnslu heildarendurskoðun á almannatryggingakerfinu, en hér kalla menn eftir því að jafnt öryrkjar sem eldri borgarar fái samsvarandi tekjuhækkanir og þeir sem fengu þær í nýgerðum almennum kjarasamningi. Það fer fram heildarendurskoðun á almannatryggingakerfinu með það að leiðarljósi að gæta hagsmuna þessara hópa, ellilífeyrisþega og öryrkja. Leyfum þeirri vinnu að ljúkast áður en við köllum hástöfum á eitthvað annað.