144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

störf þingsins.

[11:27]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Mig langar að gera orð landlæknis, sem hann lét falla fyrir einum eða tveimur dögum í viðtali, að mínum, þar sem hann sagðist, með leyfi forseta, „dást að umburðarlyndi sjúklinga sem bera harm sinn í hljóði í verkfalli heilbrigðisstarfsmanna“. Ég hef þungar áhyggjur af þessu verkfalli sem nú hefur staðið í níu vikur. Það eru nærri 2.000 starfsmenn Landspítalans sem eru í verkfalli og róðurinn er verulega þungur. Þessi kjaradeila mun hafa áhrif löngu eftir að hún leysist. Safnast hafa upp rannsóknargögn sem þarf að fara yfir, 9.000 sýni, og ég veit ekki hvað hefur ekki verið gert, búið að breyta endurkomum o.s.frv.

Ég tek undir það sem hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði hér áðan í ræðu sinni að verkfallsrétturinn sé neyðarréttur og neyðarúrræði. Það er alveg rétt, hann er heilagur, hann er neyðarúrræði. Og þess vegna spyr ég mig sem sagt hvernig honum er beitt í þessu tilfelli því það virðist færast í vöxt að verkfallsrétturinn sé notaður til þess að valda þriðja aðila, sem ekki getur borið hönd fyrir höfuð sér og ekki á aðild að deilunni, sem mestum skaða. Þetta er sorgleg þróun sem verður að breytast.

Áhrif verkfallsins á sjúklinga og aðstandendur þeirra eru algjörlega óþolandi. Ég skora því á alla hlutaðeigandi að leysa þessa deilu með hverjum þeim hætti sem þarf til þess að þessu ástandi í heilbrigðiskerfinu linni. Það er algjörlega óþolandi og það er okkur öllum til minnkunar og vansa.