144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

störf þingsins.

[11:30]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Nú hafa verkföll BHM staðið í tæpar níu vikur og hjúkrunarfræðingar hafa verið í verkfalli í um eina og hálfa viku. Því miður er ekki að sjá að neitt sé að þokast í samningaviðræðum og enn dapurlegra er að ekki er að sjá mikinn samningsvilja, hvorki hjá hæstv. fjármálaráðherra né hæstv. heilbrigðisráðherra. Þegar læknar fóru í verkfall fyrir ekki svo löngu var mikil áhersla lögð á að semja. Þegar samningar tókust var birt yfirlýsing stjórnvalda, Læknafélags Íslands og Skurðlæknafélags Íslands. Eins og lesa má á vef velferðarráðuneytisins var áherslan þar lögð á mikilvægi heilbrigðiskerfisins og vilja til að styrkja það og bæta. Hvar er sú áhersla núna?

Það er alveg ljóst að heilbrigðiskerfið okkar þolir ekki það ástand sem nú ríkir. Heilbrigðiskerfið okkar þolir ekki að starfsfólkinu sem þar vinnur finnist það og vinnuframlag þess ekki vera metið að verðleikum þegar kemur að launakjörum og starfsumhverfi. Meðan á þessum verkföllum stendur lesum við hins vegar um það í dagblöðum hvernig verið er að byggja upp einkarekna kjarna sem sinna eiga heilbrigðisþjónustu. Með því er verið að færa peninga úr sameiginlegum sjóðum til einstaklinga sem ætla að græða peninga á veikindum annarra. Er það þangað sem við viljum fara með íslenskt heilbrigðiskerfi? (LRM: Nei.) Þessari spurningu verðum við sem hér inni erum að svara því að það erum við sem tökum ákvarðanir um það hvernig fjármunum ríkisins er ráðstafað.