144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

um fundarstjórn.

[11:40]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Í ljósi orða hæstv. ráðherra lít ég svo á að með því að málið er komið hér út með nefndaráliti meiri hluta sé orðið öllu þyngra um sáttaumleitanir. Það hefur verið reynt að leita lausna og ég tel það ekki nægjanlega gott samtal á milli aðila að skipta sér ekki af máli sem er jafn stórt og þetta, hvort sem það er á milli framkvæmdarvalds og þingheims eða hvað.

Hv. formaður fjárlaganefndar boðaði pólitískar breytingar á nefndarálitinu, þar sem hún taldi að hún hefði verið að mæta minni hlutanum, með því nefndaráliti sem lá fyrir í morgun þegar málið var tekið út. Í ljósi þess hef ég miklar efasemdir um að sáttaviljinn sé ríkur af hálfu þingheims, þ.e. þingmannameirihlutans. Ef hæstv. ráðherra telur að hann geti leitt eitthvað til lykta nú þá er það af hinu góða en hafi hann ekki viljað skipta sér af því með neinum hætti áður þá veltir maður því auðvitað fyrir sér af hverju það ætti að gerast í dag.