144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

um fundarstjórn.

[11:43]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég kem hér til að bera blak af þingmönnum Framsóknarflokksins. Það er erfitt að vera framsóknarmaður innan þingsins, annaðhvort tölum við of lítið eða við tölum of mikið. Í kjölfar ummæla sem féllu hér í ræðustól vil ég taka fram að ég talaði í stjórnarráðsmálinu í gær. Ég er 1. framsögumaður á fyrsta umræðumáli á dagskrá, þegar þessum athugasemdum lýkur um fundarstjórn forseta. Og svo er okkur bannað að tala um störf þingsins.

Virðulegi forseti. Ég veit bara ekki lengur hvað er um að vera hjá minni hlutanum í þinginu. Svo koma hv. þingmenn í fjárlaganefnd og kvarta yfir því að fullbúið mál hafi verið tekið út úr nefndinni í morgun, búið að vera til umræðu í fjárlaganefnd í bráðum tvö heil ár, með öllum þeim gestum sem ég hef tíundað. Það voru vonbrigði að hv. þm. Brynhildur Pétursdóttir í Bjartri framtíð skyldi ekki taka slaginn með okkur í meiri hlutanum, því að þetta er það þroskað, heldur fylgdi fyrrverandi ríkisstjórnarflokkum í því að vera ekki á málinu.

Virðulegi forseti. (Forseti hringir.) Nú er það orðið svo að minni hlutinn (Forseti hringir.) gerir ágreining út af hverju einasta máli hér í þinginu. (Forseti hringir.) Þetta er engin (Forseti hringir.) undantekning og ég kalla þetta minnihlutaofbeldi. Það er ekki hægt að segja annað.