144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

um fundarstjórn.

[11:44]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Málið var tekið út. Hvernig getur það verið minnihlutaofbeldi? Bara svo að við reynum aðeins að átta okkur á þeirri stöðu.

Ég vona að menn endurhugsi þetta aðeins vegna þess að óskin frá minni hlutanum var sú að menn mundu skoða tiltekna þætti þessa máls til þess að freista þess að ná samstöðu um þetta. Freista þess — það er samstaða um þetta mál, en minni hlutinn vildi fá að skoða ákveðin atriði betur og ég skil ekki hvers vegna ekki var hægt að verða við því nema menn vilji sýna þingstyrk sinn í verki af því að mönnum verður svo tíðrætt um það hér að meiri hlutinn ráði. Ég hefði viljað sjá að menn sigldu þessu í höfn.

En ég ætlaði að koma hingað upp til að taka undir með hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur, ég tel að þingflokksformenn og forsætisnefnd eigi að setjast yfir það með hvaða hætti störf þingsins hafa hér þróast og reyna að finna leiðir til þess að breyta þessu þannig að tíminn gagnist sem allra best. Fyrstur kemur í þingsal, fyrstur fær — það er þá bara spurning hvort það eigi ekki að vera þannig og sleppa þessu tölvupóstskerfi.