144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

um fundarstjórn.

[11:52]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Starfsáætlun er á enda runnin. Tíminn er liðinn. Tíminn er útrunninn. En hér er fólk að reyna að tala saman um það hvernig ljúka eigi þingstörfum. Það samtal hefur farið fram á vettvangi þingflokksformanna og formanna og við erum, held ég, öll meðvituð um að á þessum tíma þurfum við öll á samtalinu að halda.

Við þurfum öll á því að halda að fara varlega í samskiptum okkar, bæði efnislega og að því er varðar formið. Ég held að meiri hluti þingheims sé á þeim nótum og þess vegna veldur það mér áhyggjum að meiri hluti fjárlaganefndar skuli í morgun taka svo stórt mál út úr nefnd í ósætti. Ekki nóg með það heldur hreykir forusta nefndarinnar sér af því að hafa tekið málið út í morgun, þrátt fyrir andmæli minni hlutans.

Ég lýsi yfir áhyggjum mínum af þessari forustu fjárlaganefndar, sem fer með mjög mikilvæg og afdrifarík mál, að hún skuli vera svo föst í gamaldags skotgrafarhernaði úreltra stjórnmála (Forseti hringir.) og vonast til þess að í þingflokkum stjórnarflokkanna séu fulltrúar sem hjálpi þeim til að sjá að sér.