144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

mælendaskrá í Störfum þingsins, afgreiðsla fjárlaganefndar á frv. um opinber fjármál.

[12:00]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég þakka forseta fyrir að taka þessa beiðni mína alvarlega vegna þess að hún var meint mjög alvarlega. Það væri líka gott ef þingmenn hlustuðu á það sem sagt var, ég kvartaði ekki yfir því að framsóknarmenn töluðu hér, ég sagði að ég hefði gaman af því að hlusta á það. Ég kvartaði hins vegar yfir því að við heyrum ekki skoðanir þeirra í dagskrármálum sem koma hér fyrir þingið.

Í dag ætlum við að tala um ríkisfjármál til næstu fjögurra ára. Þar eru stefnumál um hvernig eigi að haga ríkisfjármálum og pólitíkinni, tekjuskiptingunni eða hvað sem við köllum það næstu fjögur árin. Ég ætla að skora á framsóknarmenn sem töluðu ekkert í fyrri umræðunni, ég held að einn hafi talað, ég held að það sé rétt hjá mér, það er yfirleitt einn þingmaður framsóknarmanna sem tekur hér til máls og er hér í þingsal, Willum Þór Þórsson, og ber að þakka honum það. En ég skora á fleiri að taka þátt í venjulegum dagskrárliðum þingsins hér.