144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[12:04]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Fram hefur farið mikil umræða hér í þingsal um það mál sem við greiðum nú atkvæði um, Stjórnarráð Íslands. Sú umræða hefur verið gefandi og varpað ljósi á ýmsar brotalamir sem við mörg hver teljum að séu á þessu frumvarpi. Greinar frumvarpsins eru ekki allar illar og ég nefni þar sérstaklega breytingartillögu sem kemur frá meiri hluta stjórnlaganefndar og er upphaflega upprunnin frá IMMI-stofnuninni og er af hinu góða. En við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði munum sitja hjá við allar greinar frumvarpsins til að leggja áherslu á vilja okkar til að taka allt þingmálið til skoðunar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem mun fá málið til umfjöllunar að lokinni þessari umræðu.

Ég fagna því að varaformaður nefndarinnar, sem talaði hér fyrir meirihlutaáliti, hefur tekið vel í að setjast yfir frumvarpið með það fyrir augum að skoða þá gagnrýni sem fram hefur komið. Hann hefur ekki gefið neinar skuldbindingar af sinni hálfu eða meiri hlutans í nefndinni en það er í ljósi þessa sem við sitjum hjá í atkvæðagreiðslu um allar greinar frumvarpsins.