144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[12:08]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þetta frumvarp forsætisráðherra gerir tvennt: Í 1. gr. frumvarpsins er fært meira vald til ráðherranna samhliða því að síðasta grein frumvarpsins minnkar ábyrgðina. Það á að færa meira vald til ráðherra og minnka ábyrgðina, minnka eftirlitið með því hvernig þeir fara með það vald. Það á að sparka út óháðri nefnd sem á að fylgjast með siðareglum, hafa frumkvæði að því að rannsaka þær, hafa frumkvæði að því að hafa samband við félagasamtök á Íslandi og erlendis í því að uppfæra og bæta þær, til að draga úr spillingu. Þessari nefnd á að kasta út og í staðinn á að setja inn eitthvert ofboðslega umboðslítið batterí innan ráðuneytisins sjálfs til að fylgjast með þessum hlutum.

Þetta er vont frumvarp og maður spyr sig í alvörunni: Er forsætisráðherra, í þessu árferði, að leggja til að völd ráðherra séu aukin og ábyrgð þeirra minnkuð? Að sjálfsögðu greiðum við atkvæði gegn fyrstu og síðustu greininni, við sitjum hjá í hinum greinunum og verðum með á breytingartillögunni sem þó setur inn aukna upplýsingagjöf til almennings.