144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[12:44]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er allt saman gert með opin augu. Það er bara þannig að um ellilífeyri og örorkubætur er fjallað í lögum og ákveðið hvernig þau laun eru hækkuð sem þeir aðilar hafa. Hér er ekki verið að leggja til breytingar á lögum um almannatryggingar, svo þingmaðurinn viti það, svo þingmaðurinn átti sig á því að það er ekki hægt að taka það í gegnum þessa ríkisfjármálaáætlun. (Gripið fram í.) Fyrst við tölum um að þarna dragi eitthvað í sundur milli hópa þá voru gerðir samningar á almennum vinnumarkaði. Hæstv. félagsmálaráðherra hefur rætt um að þessi mál eru til skoðunar í ráðuneytinu þannig að hv. þm. Oddný Harðardóttir skal aðeins slaka á varðandi það.

Úr því að seinni hluti spurningarinnar sneri að niðurskurði er best að fara ekki ítarlega yfir það hvar ég vildi helst sjá skorið niður. Ég er talsmaður niðurskurðar ríkisbáknsins en það verður ekki á kostnað heilbrigðiskerfisins eða menntakerfisins eða samgöngumála eins og síðasta ríkisstjórn fór fram með, rústaði heilbrigðiskerfinu, virðulegi forseti, (Gripið fram í.) á síðasta kjörtímabili. (OH: Ætlarðu að skera niður vexti?)