144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[12:53]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum ræðuna og langar að viðra nokkrar hugsanir mínar varðandi frumvarpið. Vissulega er þetta áætlun, en eitt af því sem við höfum rætt mjög mikið í fjárlaganefnd er hvernig við gerum góðar áætlanir þannig að þær haldi að sem mestu leyti. Við því má búast að áætlun sem þessi geti tekið breytingum, en þær eru kannski heldur miklar beinlínis vegna ákvarðana ríkisstjórnarinnar, ekki endilega vegna óvissu á kjarasamningsmarkaði eða einhverju slíku. En ég ætlaði nú ekki að spyrja um það.

Mig langaði til þess að spyrja þingmanninn í fyrra andsvari mínu um það sem hún segir og kemur fram í áliti meiri hlutans, þ.e. að ein af forsendum áætlunarinnar sé að öllum óreglulegum tekjum sem kunna að falla til á tímabilinu verði ráðstafað til lækkunar á skuldum og vaxtakostnaði. Hún sagði sem svo að það væri það sem þyrfti að leggja allra mesta áherslu á og ég get alveg tekið undir það.

Það kemur hins vegar fram í áætluninni að gert er ráð fyrir því að teknar verði upp forinngreiðslur í B-deild lífeyrissjóðsins upp á 5 milljarða á ári frá og með árinu 2017. Mig langar til þess að fá um það skýrt svar frá hv. þingmanni hvort hún telur að við þurfum að taka lán til að geta staðið við það að greiða um það bil 5 milljarða á ári frá og með árinu 2017 á sama tíma og hér er sagt að borga eigi nánast allt sem afgangs verður til lækkunar á skuldum. Spurningin er: Telur hv. þingmaður að rekstrarafgangur verði nýttur til þess að borga niður lífeyrissjóð upp á 5 milljarða, eins og hér kemur fram, eða að við þurfum að taka til þess lán?