144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[12:59]
Horfa

Frsm. meiri hluta (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég var ekki að tala um að það sem kæmi út úr þessum samningum við kröfuhafana færi í það að reka ríkissjóð. Ég var að segja til hvers hægt væri að nota svigrúmið þegar samningar hafa náðst og vaxtagjöld ríkissjóðs lækka um 35–45 milljarða á ári, eftir því hvað kemur út úr þessum samningum.

Ég vil biðja þingmenn um að tala jákvætt um þetta. Hæstv. forsætisráðherra hefur sagt það í mörgum ræðum að ekki verði gengið til samninga við kröfuhafa nema það sé til hagsbóta fyrir land og þjóð. Heimilum og fyrirtækjum verður ekki fórnað í þessum samningum eins og gert var í tíð síðustu ríkisstjórnar þegar bankarnir voru afhentir án lagaheimilda á einni nóttu til kröfuhafa. Úr því er þessi ríkisstjórn að leysa núna og ætlar að hámarka þann árangur eins og hægt er til að bjarga því sem bjargað verður; ég er að tala um það þegar hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon var fjármálaráðherra og afhenti í skjóli nætur íslensk heimili og fyrirtæki til andlitslausra kröfuhafa gömlu bankana. Það er ekki til fyrirmyndar. Ég held að þingmenn ættu nú aðeins að róa sig hvað þetta varðar.

Ég svara spurningunni um S-merktu lyfin á þann veg að ég er hrædd um að þessi áætlun standist ekki. Áætlun fyrir árið 2015 stenst ekki, þannig að ég er hrædd um að áætlun fyrir 2016 standist ekki heldur. En það er með þetta eins og annað, þetta er áætlun. (Forseti hringir.) Ég held að sé alveg augljóst að bæta þurfi aðeins í þar, en legg áherslu á að þá tökum við það líka af einhverjum öðrum óþarfari fjárlagaliðum ríkisins.