144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[13:57]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurningarnar. En því miður verð ég að upplýsa það hér að fjárlaganefnd hefur ekki farið yfir þessar forsendur og hefur ekki fengið annað mat á þeim en það sem gefið er upp í fjölmiðlum. Við höfum ekki farið yfir þetta með neinum hætti.

Við vitum að launahækkanir hafa að einhverju leyti tekjur í för með sér fyrir ríkissjóð, en á móti koma breytingar á tekjuskatti sem rýrir tekjurnar. Við vitum í raun ekki hvernig þetta leggst, við vitum ekki hver lokaútkoman er af þessu, þ.e. tekjurnar hækka af því það er hærri tekjuskattur af hærri launum en síðan lækka þær vegna þess að búið er að breyta skattkerfinu. Við vitum ekki hver lokaniðurstaðan er þarna og við höfum ekki fengið þessa greiningu.

Við vitum hins vegar að þessi skattalækkun leggst með ákveðnum tekjuhópi. Ef þú horfir á allan hópinn þá eru þeir sem eru í miðju hópsins, sem eru með um 350 þús. kr., að fá í sinn hlut um 2.200 kr. og síðan fer þetta upp eftir skalanum. Þeir sem eru með 700 þús. kr. í kaup fá 12 þús. kr., síðan dettur ávinningurinn niður, en þetta sýnir okkur að þeir sem eru fyrir neðan 350 þús. kr. fá hins vegar minna, þar á meðal eru stórir hópar, eldri borgarar og þeir sem þurfa að reiða sig á bætur eins og öryrkjar. Það er áhyggjuefni.