144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[13:59]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta eru nú nokkuð alvarlegar upplýsingar sem hv. þingmaður kemur hér með að þó þetta liggi orðið fyrir með nokkurra daga eða viku aðdraganda, eða hvað það nú er, þá sé afgreiðslu málsins engu að síður lokið í fjárlaganefnd án þess að hún hafi fengið neina kynningu á þessum áformum eða eitthvert bráðabirgðamat á því í hvaða mæli þetta breytir grunninum. Nú er verið að semja hér á vinnumarkaðnum að hluta til til þriggja ára sem er 3/4 af gildistíma, eða hátt í það, þessarar ríkisfjármálaáætlunar. Þannig að menn hljóta að láta það eftir sér að líta eitthvað á þróunina eins og hún gæti orðið ef þetta yrði að einhverju leyti viðmið um launaþróunina á næstu árum.

Sömuleiðis þarf að fá skýr svör frá stjórnvöldum um það til dæmis hvernig verður með bótafjárhæðirnar. Hæstv. fjármálaráðherra verður augljóslega að reyna að verjast því að þar verði tekið mið af launaþróun, en þó það væri bara verðlagsþróunin, eins og henni er spáð — flestir reikna með eitthvað aukinni verðbólgu, og það getur tekið í líka.

Það er mikið áhyggjuefni og svo alvarlegt að loka áætluninni á þetta naumum forsendum og með nánast engum bata á fjögurra ára tímabili, til dæmis á frumjöfnuði. Ef við tökum töfluna á bls. 19 í áætluninni þá er hún sett upp þannig að enginn bati verði á frumjöfnuði á árinu 2016, hann batni um 1% á árin 2017 en 0,7% af því gangi til baka á árinu 2018. Svo er sýndur bati upp á 0,1% 2019. Þetta er sem sagt nettóbati upp á 0,4% af vergri landsframleiðslu. Það er auðvitað mjög lítið eins og hæstv. fjármálaráðherra hefur sjálfur viðurkennt.

Ef þetta er að skekkjast verulega, þó að vissulega séu bæði plús- og mínusliðir í þessum breytingum núna, á (Forseti hringir.) hina verri hlið þá er áætlunin öll komin í mínus. Það getur ekki verið (Forseti hringir.) ásættanlegt.