144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[14:32]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ef við leikum okkur með tölur þá blasir það við að sú hæstv. ríkisstjórn sem nú situr hefur afsalað sér sem svarar til tekna upp á 30 milljarða á ári með því að fella niður ýmsa skatta. Það eru 120 milljarðar á kjörtímabili. Ef maður leggur það við þá 80 milljarða sem hv. þingmaður nefndi hér áðan þá eru það 200 milljarðar. Það er dálítið drjúgur partur af brúttóskuldum ríkisins og ætli það mætti þá ekki segja að ef við hefðum náð því og greitt skuldirnar niður sem því næmi þá værum við að lækka vaxtakostnað ríkisins sennilega um 12 milljarða eða svo.

Ef við værum innan Evrópusambandsins, af því að ég er maður sem lifi í framtíðinni, og værum að borga til dæmis sömu vaxtaprósentu og Grikkir þá værum við ekki að borga 90 milljarða í dag. Þá værum við að borga 30 milljarða, (Forseti hringir.) 1/3 af því sem við erum að borga í dag. Kostnaður af því að standa utan Evrópusambandsins, bara í þessu eina dæmi, er 60 milljarðar á ári.