144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[14:39]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fólk býr náttúrlega við mismunandi lífskjör í Evrópusambandinu ekkert síður en það gerir hér á landi. Ég hef sjálfur verið búsettur í aðildarríkjum Evrópusambandsins og hef séð þar hvernig fólk á misauðvelt með að komast yfir húsnæði, og ég horfi á lífskjör stéttanna þar og sambærilegra starfshópa og sé ekki þá miklu hagsæld sem á að vera fólgin í Evrópusambandsaðild. Það eru svo margir þættir sem þar koma við sögu og mér finnst menn oft vera æði alhæfingagjarnir, sennilega á báða bóga, í þessari umræðu.

Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir greinargóð svör. Hún nefnir vaxtakjörin, þar sé óvissuþáttur. Hún nefnir kjarasamningana og ráðstafanir í tengslum við þá, tekjuskattslækkunina og svo má líka nefna framlag til húsnæðismála. Afnám hafta er einn þátturinn. Síðan vil ég spyrja hv. þingmann (Forseti hringir.) hvort ekki hefði verið eðlilegra að við hefðum afgreitt hér samgönguáætlun og gengið endanlega frá henni, með stórum fjárhagsútgjaldaliðum, áður en við tækjum til hendinni við að ræða tillögu um ríkisfjármálaáætlun.