144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[14:46]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Já, það er svo sannarlega þannig að lækkun lyfjakostnaðar er stöðugt viðfangsefni. Hér í salnum er nú hv. þingmaður, sem áður var heilbrigðisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, sem er einn af þeim fjölmörgu ráðherrum sem hafa lagt sig fram um það; og það er mikið í húfi og þetta verður stöðugt viðfangsefni.

En S-merktu lyfin, sem hefur verið fjallað um núna, eru til dæmis lyf vegna þurrks í augnbotnum hjá eldra fólki og vegna krabbameins. Auðvitað eykst tíðni þess með hækkandi aldri þjóðarinnar. Þar eru stöðugt að koma inn á markaðinn dýrari og dýrari lyf en sem bæta jafnframt mjög lífsgæði fólks og möguleika til að ná heilsu. (Forseti hringir.) Það verður ekki við það unað að fólki sé mismunað eftir því hvenær það veikist á árinu, því að þá erum við að segja skilið við siðað samfélag.