144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[14:49]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að tjá mig aðeins um þessa tillögu til þingsályktunar um ríkisfjármálaáætlun. Það er í sjálfu sér af mörgu að taka en ég vil byrja á því að þakka fjármálaráðherra og starfsfólki ráðuneytisins fyrir þetta plagg og þá vinnu sem liggur að baki. Að sama skapi óskaði ég eftir því hér við ráðherra úr ræðustól að hann kæmi fyrir fjárlaganefnd og ræddi þær breytingar sem orðið hafa með aðgerðum ríkisstjórnarinnar nú undanfarið, bæði þá 2,6 milljarða sem fóru í samgöngur og innviði og svo 20 milljarðana sem reiknað var með vegna kjarasamninga. Í ljósi þess að fjárlaganefnd og forsvarsmenn hennar hafa talað mikið um aðhald og eftirlit þá tel ég skynsamlegt að við förum aðeins yfir þetta.

Gert er ráð fyrir því í áætluninni að heildarskuldirnar af vergri landsframleiðslu lækki nokkuð hratt og fari úr því að vera tæp 68% í 50% árið 2019, og þá er það þetta stefnumið að lækkunin verði í kringum 15%. Það er svo spurningin, í ljósi þess sem hér var sagt, hvort færi gefst á því að standa við það, en auðvitað vonum við að við náum því.

Það er hlutverk ríkisfjármálaáætlunar að þingið fái færi til þess að fara í gegnum þá stefnumótun sem ríkisstjórnin og ráðherrar fyrir hennar hönd setja fram, henni er ætlað það hlutverk að móta fjárlögin til framtíðar. Þetta er nú svo sem ekki í fyrsta skipti sem svona plagg er lagt fram, ég held að það hafi þrisvar verið gert áður; það átti forminu samkvæmt að leggja það fram í fyrra en því var frestað. En þetta snýst um það að við sjáum fyrir okkur rammann og hvernig ráðuneytin skipta peningunum á milli málaflokka, að Alþingi fjalli um það og nái utan um það með einhverjum hætti með skilaboðum til ríkisstjórnar.

Ég held að það sé vert að geta þess, það er staðfest í þessu plaggi, að aðgerðirnar sem gripið var til á sínum tíma skiluðu árangri. Það kemur bæði fram hér í línuriti um þróun verðbólgu og kaupmáttar og síðan þurfum við að hafa í huga hvað kemur út úr þessum kjarasamningum núna, hvort við náum að viðhalda því. En á síðasta kjörtímabili, þegar við vorum að baksa við þann jöfnuð í ríkisfjármálum sem allir vilja ná, alveg sama hvar þeir standa í pólitík — það er þá bara mismunandi aðferðafræði sem til þess er notuð — vildum við minnka vaxtagjöld og breyta þeim í eitthvað sem hægt væri að færa yfir í velferð og safna ekki áfram skuldum. En ég held að við höfum bara þurft tíma, ég held að það hafi komið í ljós að ekki hefði mátt ganga nær kerfinu en gert var í ljósi aðstæðna, og ég held að það hafi verið skynsamlegt að gera það með þessum hætti.

Það eru margir óvissuþættir í þingsályktunartillögunni, það er mjög víða tekið fram, meðal annars kjarasamningar. Ríkið á eftir að semja við sitt fólk í heilbrigðisstéttunum og það skiptir miklu máli. Ég held að við þurfum að hafa í huga, þegar við förum í þá samninga, að þær tekjur sem menn telja sig geta aflað, með þeirri pólitík sem þeir setja fram, verði ekki til þess að skera þurfi einhvers staðar niður á móti.

Mér skilst að í dag hafi verið lagt fram á ríkisstjórnarfundi mál tengt afnámi hafta en það er auðvitað mikið áhyggjuefni og er það stærsta sem við stöndum frammi fyrir í þjóðarbúskapnum. Það er mikilvægt að vel takist til og við höfum öll talað fyrir því að það sé það sem við viljum hjálpast að við að gera. Grunnurinn að því plaggi sem við ræðum hér snýr svo mikið að því hvernig það mál verkast allt saman.

Hér er sagt að vöxturinn sé drifinn áfram af aukinni fjárfestingu, bæði atvinnuvega-, stóriðju- og íbúðafjárfestingu. Þetta sjáum við með mismunandi hætti eftir því hvar við stöndum í pólitíkinni, þ.e. hvað það er sem á að drífa þetta áfram. Ég hef áhyggjur af samneyslunni og þeirri pólitík sem birtist hér í þessu þingmáli. Svo að ég hlaupi hér fram og til baka í tillögunni þá koma fram á bls. 38 þessi stefnumið um útgjaldaþróun þar sem gert er ráð fyrir að raunvöxtur útgjaldahliðarinnar verði minni eða hægari en sem nemur raunvexti vergrar landsframleiðslu alveg fram til 2019. Það felur þá í sér að hlutfall frumgjalda án óreglulegra liða af vergri landsframleiðslu lækkar um 1 prósentustig. Þetta er mjög lág tala sem segir okkur það á mannamáli að pínulítil sneið af þjóðarkökunni fer í það að við getum rekið velferðarkerfið okkar og byggt upp innviði samfélagsins, og það er hætta á því að þeir veikist ef batinn verður ekki betri en hér ar lagt fram. Mér finnst þetta ekki vera sú framtíðarpólitík sem hér er að mörgu leyti lagt upp með.

Það er talað um ferðaþjónustuna, hún sé ein helsta driffjöðrin. Það er mikið stólað á að hún skili miklu áfram. Ég hef líka áhyggjur af því. Hér hefur aðeins verið komið inn á að meiri hlutinn hefur ekki lagt til að ívilnun ferðaþjónustunnar minnki þrátt fyrir þennan mikla gang í henni. Uppleggið er svolítið það að verið er að byggja mörg og risavaxin hótel og það er talað um stækkun þjónustueininga hérna. Ég lít svo á að verið sé að tala um þetta stóra og mikla í staðinn fyrir að hugsa til framleiðninnar. Við þurfum auðvitað að fjárfesta miklu meira í menntun í ferðaþjónustu. Við þurfum líka að styðja betur við ferðaþjónustufyrirtækin, þessi litlu, sprotafyrirtækin þar, en maður hefur ákveðnar áhyggjur af öllum þessum risavöxnu hótelbyggingum, að þetta springi í andlitið á okkur. Ég geld varhuga við því að þetta sé eitthvað sem okkar litla þjóð þoli til framtíðar að eiga svona gríðarlega mörg hótel. Við þurfum að minnsta kosti að búa okkur undir að þessi grein geti tekið dýfu eins og hverjar aðrar greinar á einhverjum tímapunkti og að við séum þá undir það búin.

Hér er talað um fjárfestingu atvinnuveganna, hversu lítil hún hefur verið, sem er í sjálfu sér alveg rétt. Hún hefur verið frekar lág, langt undir langtímameðaltali. Eins og segir og sést reyndar mjög vel á mynd á bls. 13 þá hefur hún ekki náð að halda í við afskriftir. Það er auðvitað afar áhættusamt að svo sé og kannski má segja að við séum að færa allt of mikið inn í framtíðina, meðal annars uppbyggingu samgangna og innviða þrátt fyrir þá peninga sem voru um daginn settir í samgöngur. Það er um margt áhyggjuefni, hvernig fólk stillir þessu hér upp.

Talað er um að í stefnumiðum ríkisfjármálaætlunarinnar eigi afkoman að vera í kringum 10 milljarða og er í kringum 40, að því gefnu að þetta haldi. Það þýðir að afkomuferillinn byggist á þessu meginmarkmiði, að rekstrarafgangur verði, sem við teljum að sé í hættu miðað við það sem hér hefur verið sagt og gert.

Ég fór í andsvar við formann fjárlaganefndar varðandi forinngreiðslur í B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, þar sem gert er ráð fyrir 5 milljörðum frá og með árinu 2017 til að byrja með. Ég held að við séum öll sammála um að þetta eru miklir fjármunir inn í framtíðina. Lífeyrissjóðurinn heldur áfram að stækka og við þurfum að byrja að greiða til þess að þetta verði ekki ein stór sprengja í framtíðinni; það er mjög skynsamlegt að gera það. En það vekur athygli hér á bls. 24 að rekstrarreikningurinn á greiðslugrunni þarf að skila 5 milljarða aukningu á handbæru fé. Það liggur ekki á hreinu hvort nota á þá 5 milljarða, sem gætu orðið til á greiðslugrunni í handbæru fé, til að greiða niður þessa lífeyrisskuldbindingu eða inn á hana, eða hvort það þarf að taka lán fyrir henni. Eins og hv. formaður fjárlaganefndar sagði þá ætti að nota sem mest af því sem út af stæði í jákvæðum rekstri ríkissjóðs til þess að greiða niður skuldir. Við getum ekki margnotað sömu peningana og því hefur ekki verið svarað; hæstv. ráðherra svaraði því ekki, þegar ég spurði hann hér í andsvari við fyrri umræðu, hvort þetta væri með þessum hætti.

Síðan eru óvissuþættir sem hér hefur verið farið inn á, varðandi Íbúðalánasjóð og framtíðarskipan hans. Hv. þm. Ögmundur Jónasson kom einmitt inn á að hvort sem það væri tengt krónu eða evru þá breytti það því ekki að fólk hefði ekki alls staðar sama aðgang að lánsfjármagni á sambærilegum kjörum, og það hefur því miður reynst vera þannig. Þess vegna skiptir máli að landsbyggðin verði tryggð gagnvart því ef gera á stórar breytingar á Íbúðalánasjóði, en hann hefur verið með ósjálfbæran vaxtamun mjög lengi. Við vitum að búið er að setja í hann fullt af peningum en ekki er tekið tillit til þess í þessari áætlun.

Ef efnahagsleg áföll verða þá er ekki gert ráð fyrir neinu slíku enda get ég tekið undir það að það geti kannski verið erfitt.

Mig langaði að koma aðeins inn á útgjaldasvigrúmið sem aðeins er farið í á bls. 28. Verið er að tala um að áætlanir feli í sér um það bil 4 milljarða kr. útgjaldasvigrúm sem á að ráðstafa á síðari stigum fjárlagagerðarinnar til einstakra málaflokka í samræmi við stefnumörkun ríkisstjórnarinnar. Það er kannski grundvöllurinn að því sem við ræðum hér að stefnumörkun ríkisstjórnarinnar kemur í raun ekki fram í þessu plaggi nema mjög yfirborðskennt. Í hverju á að fjárfesta, í einhverju öðru en því sem nú þegar er verið að gera? Hvað er það sem hægri stjórnin vill leggja áherslu á? Það er kannski það sem okkur vantar að vita, því að það er margt sem við getum haft skiptar skoðanir á þegar að því kemur. Það er sem sagt sett fram langtímaáætlun um þessa 4 milljarða en ekkert um það í hvað eigi að nota þetta.

Það er reyndar talað um að helmingurinn verði ákvarðaður á næsta ári til varanlegra málefna og svo er talað um tímabundin átaks- og uppbyggingarverkefni. Það væri áhugavert að vita hvort stjórnarliðar hefðu einhverjar hugmyndir um hvað væri þarna undir, hvort þeir hefðu fengið einhverja kynningu á því.

Mig langar líka að gera S-merktu lyfin að umtalsefni, svokölluð sjúkrahúslyf sem fólk fær þegar það er langveikt. Ég tek undir þá umræðu sem hér fór fram áðan að við þurfum að gera betur. Við getum gert betur mjög víða og þyrftum að huga að því. En auðvitað vekur það athygli að reglugerðin er tilbúin en hún hefur ekki verið tekin í framkvæmd og það er enn einn óvissuþátturinn sem við höfum ekki fengið formlega frá ráðherra. Velferðarráðuneytið hefur vissulega komið á fund fjárlaganefndar og gert grein fyrir því að um er að ræða fjárhæðir sem skipta milljónum sem ekki er gert ráð fyrir og þurfa væntanlega að koma inn á fjáraukalög. Það telst ekki ófyrirséð af því að ráðherra var jú búinn að láta búa þessa reglugerð til, en hefur ákveðið að hrinda henni ekki í framkvæmd enn sem komið er að minnsta kosti og það þýðir þá lækkun tekna það sem af er árinu.

Hér eru nokkur önnur atriði sem ég vil nefna. Við tölum gjarnan um að reyna að halda uppi aga og viljum reyna að gera það. Þá er þessi óreglulegi liður og heildarútgjaldarammi er eitthvað sem ég held að við eigum að stefna að að draga verulega saman. Hægt er að áætla fyrir allflestum liðum þarna inni. Þeir eru ansi margir. Það eru lífeyrissjóðsskuldbindingar, fjármagnstekjuskattur ríkissjóðs, afskriftir skattkrafna, atvinnuleysi, Jöfnunarsjóður sveitarfélaga, ríkisábyrgðir, tapaðar kröfur og tjónabætur, framlög til Íbúðalánasjóðs, niðurfærsla á verðtryggðum húsnæðisskuldum og vaxtagjöld. Það er margt af þessu sem hægt er að áætla, þetta eru 512 milljarðar, sem er allt of há fjárhæð til að taka alltaf út fyrir sviga. Ég held að þeir sem vilja stýra ríkisfjármálum með aga hljóti að stefna að því að fækka þessum liðum.

Hér eru svo önnur mál sem ekki er gert ráð fyrir í þessu plaggi, meðal annars frumvörp félags- og húsnæðismálaráðherra, sem kosta væntanlega töluvert mikið. Það er skrýtið að ekki sé gert ráð fyrir einu eða neinu þar. Það er því ekki óeðlilegt að maður geri athugasemdir við að í þessari áætlun, þetta er ekki léttvægt plagg, sé því ekki velt upp með hvaða hætti á að fjármagna hlutina. Við þurfum að taka þessa hluti til athugunar. Það er algjör synd að um sé að ræða þingsályktunartillögu í síðari umræðu, sem þýðir að hún kemur ekki fyrir nefndina aftur.

Það er áhyggjuefni að formaður fjárlaganefndar skuli hvetja til þess að þetta verði samþykkt óbreytt, án þess að óska eftir því að gerð verði grein fyrir áhrifum af öllum þeim liðum sem ég hef hér farið yfir, það er áhyggjuefni að fólk ætli að samþykkja eitthvað sem það veit að gengur ekki upp. Ég hvet hv. þingmenn í meiri hlutanum til þess að velta þessu fyrir sér, þó ekki væri annað en að það kæmi fram í ræðum hjá þeim að þeir hefðu áhyggjur af tilteknum atriðum eða teldu að einhverju þyrfti að breyta o.s.frv.; það er að mínu viti ekki ábyrgt.

Virðulegi forseti. Ég kem væntanlega í síðari ræðu og fer nánar yfir það sem minni hlutinn setti frá sér í sameiginlegu nefndaráliti og fer kannski nánar ofan í tiltekna liði.