144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[15:12]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Nei, þetta hefur ekki komið til tals með formlegum hætti í nefndinni. Vissulega er heimild fyrir því að selja þennan hlut, en maður undrast, í ljósi þess sem hv. þingmaður rakti hér um samþykkt á flokksþingi framsóknarmanna, sem mér skilst að hafi verið einróma að formaður nefndarinnar leggur samt sem áður til að áætlunin verði samþykkt hér óbreytt.

Þess vegna sagði ég í mínum lokaorðum að ég hefði gjarnan viljað heyra þingmenn meiri hlutans koma hér upp og gera grein fyrir því ef þeir teldu forsendur hafa breyst, það mætti þá ræða það. Auðvitað er það svo að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, getur skipt um skoðun eins og við hin og kannski hefur hún gert það frá því hún sat á flokksþinginu, í það minnsta leggur hún þetta til. Nú veit ég ekki hvort hún hefur rætt það innan síns flokks eða hvað, en það hefur ekki verið rætt með neinum hætti hvað getur komið í staðinn. Fólk gerir ráð fyrir auknum tekjum, óreglulegum tekjum, sem kannski eiga að koma í staðinn, en þá er þetta plagg ekki rétt.

Ef fólk er að falla frá því og segir sem svo: Við getum fengið þessa peninga annars staðar sem annars mundu koma af sölu Landsbankans — gott og vel, ef það eru rök þá þarf að segja: Og því erum við ekki sammála því sem hér stendur og leggjum til að o.s.frv. Það gerði hv. formaður fjárlaganefndar ekki. Því hef ég ákveðnar efasemdir. Það verður áhugavert að sjá hvernig þingflokkur Framsóknarflokksins greiðir þessu atkvæði.