144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[15:40]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann leggur áherslu á og kann að meta vandaða áætlanagerð, metur gildi hennar, og ég er sammála hv. þingmanni hvað það varðar. Við höfum ekki verið sérstaklega flink í því að gera vandaðar áætlanir í ríkisfjármálum, eins og fjáraukalögin hafa sýnt, þó að okkur hafi tekist að laga það, alla vega á síðasta kjörtímabili, heilmikið frá því sem áður var.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann hafi ekki áhyggjur af því, og hvort það rýri ekki gildi áætlunarinnar, að hún er þegar farin svo mikið úr skorðum, bæði með skattbreytingunum og kostnaði vegna þeirra og svo með húsnæðisfrumvörpum hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra sem ekki er gert ráð fyrir í áætluninni.

Hitt sem ég vil spyrja hv. þingmann um er: Í áætluninni er fjallað um það brýna verkefni að greiða niður skuldir. Ég held að við séum öll sammála því að það er viðkvæm staða fyrir skulduga þjóð að geta ekki greitt niður sem fyrst að stóran skuldastabba. En gert er ráð fyrir að nafnverðið verði greitt niður með sölu á 30% hlut í Landsbankanum eða sölu í öðrum fyrirtækjum.

Nú hefur Framsóknarflokkurinn samþykkt það fyrir sitt leyti að hann vill ekki selja hlut í Landsbankanum. Ég vil biðja hv. þingmann um að fara yfir það hvort þetta standist í ríkisfjármálaáætluninni, hvort framsóknarmenn muni greiða því atkvæði. Ef ekki: Hvaða önnur félög — vita hv. þingmenn Framsóknarflokksins það — er verið að tala um að selja ef ekki tekst að selja hlutinn í Landsbankanum?