144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[15:44]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég sakna þess, verð ég að segja, að stefnumál ríkisstjórnarinnar hafi ekki fengið meira rými í ríkisfjármálaáætluninni og húsnæðismálastefna hafi til dæmis ekki fengið neitt rými í áætluninni sjálfri því að hún var ekki að detta niður rétt á meðan verið var að semja á almennum vinnumarkaði. Ég vona að hv. þingmaður geti svarað mér um sölu í Landsbankanum, hlutunum þar, og afstöðu Framsóknarflokksins. Ef það verður ekki gert bið ég hann um að upplýsa mig um hvaða önnur félög eru þarna undir; þau sem nefnd eru en ekki tilgreind sérstaklega þegar talað er um önnur félög sem eigi þá að selja til að greiða niður skuldir.

Ég spyr hvort hv. þingmaður átti sig á því að ef hann greiðir atkvæði með ríkisfjármálaáætlun óbreyttri sé hann að samþykkja að fara gegn 69. gr. laga um almannatryggingar með því að samþykkja að þeir sem þurfa að reiða sig á bætur fái ekki hækkanir í takt við þróun á vinnumarkaði.