144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[15:56]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Merði Árnasyni fyrir spurningar sem sneru að stefnumörkun í skattamálum. Það er ágætisyfirlit hér á bls. 4 um aðgerðir og það er sannarlega hárrétt hjá hv. þingmanni að í slíkum aðgerðum á tekjuöflunarhlið ríkisfjármálanna birtist að mörgu leyti sú skattstefna sem hver ríkisstjórn hefur hverju sinni. Hv. þingmaður kom inn á virðisaukaskattskerfið, sem er okkar öflugasti skattstofn í tekjuöflun, og lagt er upp með að einfalda það kerfi og þrengja bilið á milli. Ég styð þá leið að því marki að virðisaukaskattskerfið er síður til þess fallið að jafna kjör í þjóðfélaginu en tekjuskattur.

Nú sjáum við jafnframt, ef við komum að tekjuskattinum, að þar er verið að fara í þá átt að taka eitt bil út, þannig að það verða bara tvö þrep. Ég vil átta mig mun betur á því hvaða jöfnunaráhrif það hefur, til dæmis á þá kjarasamninga sem nú er búið að klára á almenna vinnumarkaðnum áður en ég fullyrði um það; ég vil alla vega ekki ganga lengra í þeim efnum, ég vil skoða tekjujöfnunaráhrifin.

Varðandi tryggingagjaldið á atvinnulífið þá er lagt upp með að lækka það og ég styð það. Ég held jafnvel að fara þurfi hraðar í það í ljósi nýjustu samninga.