144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[15:58]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Ég þakka þingmanninum fyrir svörin. Það er kannski ekki alveg óvænt að hann styðji lækkun á tryggingagjaldi til atvinnulífsins, og má ég segja til sjálfstætt starfandi manna, þar á meðal sjálfstætt starfandi manna yfir sextugt, úr því hv. þm. Össur Skarphéðinsson er hér í salnum með sína ágætu tillögu um niðurfellingu eða léttingu á því tryggingagjaldi.

Það væri fróðlegt að heyra betur frá hv. þingmanni afstöðu hans til virðisaukaskattskerfisins. Hvað er átt við með því að færa það í einfaldara og nútímalegra horf? Er þingmaðurinn á því að aðeins eigi að vera eitt þrep í virðisaukaskatti úr því það gegnir ekki hlutverki sem tekjujöfnunarkerfi að hans mati? Er það þannig að þar eigi ekki að vera neinar undanþágur, til dæmis menningarlegar undanþágur? Hver er stefna Framsóknarflokksins í þessu? Og hvað er það sem í raun og veru birtist okkur í þessari áætlun?