144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[16:01]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég ræddi þessa áætlun við fyrri umr. þegar hún kom fram og ætla að reyna að forðast að endurtaka það sem ég sagði þar en fjalla frekar um hana eins og hún er á þessu stigi og það sem nýtt hefur bæst við.

Ég verð þó að segja að ég sem beið spenntur eftir þessu plaggi verð fyrir vonbrigðum. Ég hafði gagnrýnt undanfarin tvö ár eða eitt og hálft ár að hæstv. ríkisstjórn skyldi ekki hafa lagt í vinnu við sjálfstæða áætlanagerð og látið myndarlegt sérrit fylgja fjárlögum eða haft að minnsta kosti fylgihefti fjárlaganna vel úr garði gert, rit af því tagi sem komu út ítrekað í tíð fyrri ríkisstjórnar, sjálfstæð rit þar sem lögð var talsverð vinna í að reyna að grína inn í framtíðina. Hér er loksins komin tillaga í samræmi við ákvæði þingskapa um að ráðherra leggi slíkt fyrir á vorþingi, en hún er þó ófullburða, hún er ekki með þeim römmum og þeirri skiptingu niður á málaflokka sem ætlunin er að verði, hún uppfyllir t.d. alls ekki væntingar í samræmi við frumvarp sem hér er líka til meðferðar um opinber fjármál. Hvað um það. Við skulum vona að þetta standi áfram til bóta og smátt og smátt komist verklagið í þessum efnum í fastmótað og gott form.

En það er innihald þessarar áætlunar sem er auðvitað aðalvonbrigðin, hvað framtíðarsýn fyrir þróun ríkisbúskaparins er dauf næstu fjögur árin og miklum mun dapurlegri en ég hafði gert mér vonir um strax fyrir nokkrum árum síðan þegar fór að rofa til í hagkerfinu hjá okkur á árinu 2010/2011, svo maður tali nú ekki um núna þegar hagvöxtur hefur verið samfelldur frá árinu 2011 og horfur eru á honum áfram þokkalegum, nokkuð meiri en í helstu viðskiptalöndum okkar, það er batnandi ástand í búskapnum. Hér birtist ríkisfjármálaáætlun sem þýðir að við munum nánast hjakka í sama farinu næstu fjögur árin. Það verður sáralítill bati á búskap ríkisins og í raun og veru stöðvast batinn og við höldum nokkurn veginn sjó næstu fjögur árin ef svo heldur sem horfir. Er metnaður hæstv. ríkisstjórnar ekki meiri en þetta? Það virðist ekki vera.

Hæstv. forseti. Ég sé að það er greinilegt að okkur stjórnarandstæðingum er ætlað að ræða þetta einum. Hér er ekki einn einasti stjórnarsinni í þingsalnum, ekki einn einasti, (Gripið fram í.) jú, einn er hér í hliðarsal, gerir vart um það, en auðvitað hefði verið gaman að hafa hér hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra og forustulið ríkisstjórnarinnar í fjárlaganefnd, efnahags- og viðskiptanefnd o.s.frv., en það er ekki. Þau sýna þessari áætlun sinni ekki mikla virðingu. Kannski eru þau ekkert sérstaklega stolt af henni. Ég ætla þá líka að vona að það sé vegna þess að þau hálfskammast sín fyrir hana því hún er aum, hún er allt of léleg. Hún birtir framtíðarsýn sem ég er að minnsta kosti algerlega ósammála, bæði pólitískt og efnahagslega. Hún birtir okkur þá framtíðarsýn sem ég tel vera ljótustu einstöku töluna í þessu öllu saman og má lesa hana út úr töflu á bls. 19, en í reynd er hún falin miklu aftar í plagginu þar sem talað er um þróun frumjöfnuðar og frumgjalda ríkisins inn í framtíðina, það þarf aftur á bls. 38 til að finna töluna. Það er talan um þróun frumgjalda án óreglulegra liða sem hlutfall af landsframleiðslu. Hvaða tala er frumgjöld án óreglulegra liða? Það er hinn raunverulegi rekstur ríkisins án vaxtakostnaðar. Það er umfang ríkisbúskaparins að slepptum fjármagnsliðum, frumgjöldin án vaxtakostnaðarins og frumtekjurnar án vaxtatekna. Þetta hlutfall á að lækka jafnt og þétt í tíð þessarar ríkisstjórnar samkvæmt fjármálaáætlun hennar og vera komið niður í 23,4% árið 2019. 23,4%. Þetta er algerlega óásættanlegt, að minnsta kosti þeim sem vilja að Ísland tilheyri áfram norrænum eða vestur-evrópskum velferðarríkjum, því svo aumt getum við auðvitað ekki haft ástandið að við verjum svona litlum tekjum, svona litlu hlutfalli af þjóðartekjunum á hverju ári í í raun og veru þetta allt saman, í frumgjöld. Samt er afkoman í járnum.

Þetta stafar auðvitað af því að tekjugrunnur ríkisins er ósköp einfaldlega of veikur eins og ríkisstjórnin leggur hlutina upp. Það er vegna þess að ríkisstjórnin er ýmist búin að eða er að undirbúa að afsala ríkinu tekjum, sem væru miðað við það sem þær gáfu af sér þegar þær voru til staðar um 30 milljarðar, svo eiga að bætast 9–11 milljarðar eða jafnvel 16 í töpuðum tekjuskatti núna tengt kjarasamningunum. Þetta er auðlegðarskattur sem gaf af sér 10,5–11 milljarða tvö síðustu árin sem hann var lagður á, hann var vaxandi skattstofn, hann var á uppleið, vegna þess að auðurinn er að aukast hjá ríkasta hluta Íslendinganna. Þetta eru milli 5 og 6 milljarðar, sennilega nær 6 milljörðum á núgildandi verðlagi vegna lækkunar tekjuskatts á miðþrepi. Þetta eru að minnsta kosti 5 milljarðar í lægri veiðigjöldum en afkoma sjávarútvegsins byði augljóslega upp á að hann greiddi. Sögulegasta milliuppgjör sem ég hef séð nokkurn tímann var þriggja mánaða uppgjör Granda á dögunum með 40% framlegð, vissulega afbrigðilega góð loðnuvertíð sem dettur inn á þann tíma, en það er alveg sögulegt að sjá þetta. 40% framlegð út úr rekstrinum á fyrstu þremur mánuðum ársins.

Þarna er tekjutap upp á líklega 5 milljarða plús/mínus, nú man ég ekki töluna nákvæmlega, vegna þess að ríkisstjórnin fellir niður vörugjöld á einu bretti, þar með talið sykurskatt upp á 3 milljarða, lækkar efra þrepið í virðisaukaskatti um 1 prósentustig, hækkar að vísu matarskattinn á móti en það dugar ekki til, þannig að nettótekjutapið eru 5 eða 6 milljarðar. 2 milljarðar í viðbót detta út um næstu áramót þegar orkuskatturinn fellur niður, það vill þessi ríkisstjórn, og síðan hefur hún ekki látið ýmsa krónutöluskatta fylgja verðlagi. Hún hefur ekki fært upp til verðlags bensíngjöld, olíugjöld, þungaskatt og margt fleira undanfarin tvö ár og alls ekki síðast, verðbólgan hefur að vísu ekki verið mikið en ríkisstjórnin hefur ekki notað lagið til að vinna upp slakann. Þetta þýðir til dæmis að markaðir tekjustofnar Vegagerðarinnar gefa af sér 11 milljörðum kr. minna en ef þeir væru nýttir til fulls. Þarna er eitthvert milljarða tekjutap vegna þess að menn hafa ekki látið krónutölugjöldin fylgja verðlagi.

Jæja, þá er ég kominn í 30 milljarða, að minnsta kosti 29 með þessari einföldu jöfnu. En þetta eru þær tekjur sem skattstofnarnir voru að gefa af sér þegar þeir voru lagðir niður eða gera núna og segir okkur ekki hvað þeir mundu gefa með vaxandi þjóðarveltu í þjóðarbúskapnum, sem sagt meira. Og nú á að bæta þarna umtalsverðri tölu við, 20 milljörðum skulum við segja í formi tekjutaps og aukinna útgjalda. Þannig að þarna er að myndast býsna mikið bil. Við erum komin í stærðargráðuna 50 milljarðar kr. sem afkoman í sjálfu sér gæti verið betri.

Auðvitað er dæmið ekki alveg svona einfalt. Að sjálfsögðu hafa kjarasamningar núna líka tekjuáhrif, bæði útgjalda- og tekjuáhrif. Tímabundið getur vel verið að ríkissjóður fljóti ágætlega ef hér er vaxandi þensla og verðbólga í pípunum sem sá sem hér talar óttast verulega, en það er skammgóður vermir eins og reynslan kennir okkur að veikja hina stabílu tekjustofna og lifa á froðutekjum á meðan hagkerfið er í uppsveiflu. Því hvert fara þær ef hagsveiflan snýst við? Þær gufa upp, þær hverfa og eftir stendur tekjugrunnurinn veikari.

Þetta leiðir til þess að ríkisstjórnin, fangi sinnar eigin stefnu, neyðist til að setja fram ríkisfjármálaáætlun sem er í járnum, þar sem batinn í búskap ríkisins, afkomu ríkisins, stöðvast. Það er veruleikinn. Ef ekki verður með einhverjum ráðum aflað tekna á móti nú eða þá sparað við útgjöld vegna þess sem að ríkisstjórnin er nú í viðbót að setja á ríkissjóð, fer afkoma hans í mínus, þá fer hún niður fyrir strikið. Er það metnaðurinn sem menn hafa fyrir hönd ríkisfjármálanna á þessum árum?

Ef svo skyldi fara — og ég minni á að jöfnuðurinn samkvæmt þessari áætlun á ekki að vera nema 11 milljarðar í afgang á árinu 2016 — ef þessi útgjöld eru upp á 20 milljarða eða tekjutap útgjalda er upp á 20 milljarða, hvað þýðir það? Þýðir það þá 9 milljarða halla á ríkissjóð á næsta ári? Mjög gróft reiknað án þess að taka neitt annað með inn í dæmið þá gæti það litið þannig út, en svo koma nú tekjur á móti. Kjarasamningarnir munu auka veltuna og auka einkaneysluna og ríkið fær eitthvað meira inn í óbeinum sköttum. Það þarf að vísu væntanlega að borga líka hærri laun til sinna starfsmanna. Hvað ætlar það að gera í tryggingakerfinu? Ætlar það að láta bætur þar fylgja launaþróun? Þá koma nú heldur betur reikningar þar á móti. En svona naumt er þetta.

Það getur vel verið að ríkisstjórnin, að því marki sem hún er eitthvað að hugsa um efnahagsmál, sjái fyrir sér að hún muni komast upp með þetta vegna þess að það sé þensla í vændum. Þá eru menn að endurtaka leikinn frá þensluárunum upp úr aldamótum þegar þeir slógu um sig og lækkuðu skatta en ríkissjóður bjó við ágæta afkomu af því það var að kvikna í hagkerfinu sem leiðir auðvitað tímabundið til mikilla tekna. Það ultu inn froðutekjur í miklum mæli inn í ríkissjóð á þensluárunum. En hvert fóru þær í árslok 2008? Hvert fóru þær? (Gripið fram í: Borga niður skuldir. ) Það var nú því miður allt of lítið gert af því. (Gripið fram í: Þú varst á móti því.) Það hefði þurft að reka ríkissjóð með mun meiri afgangi. Þær fóru fyrir lítið.

Hvað ef Seðlabankinn hækkar nú vexti 10. júní næstkomandi um 50 punkta og jafnvel meira í ágúst næstkomandi vegna þess að hann telur að hér sé þensla að fara af stað? Um það virðast flestir greiningaraðilar vera sammála. Við erum að sjá umtalsverðar fjárfestingar í atvinnulífinu sem er auðvitað vel, það er ánægjulegt að sjá meðalstór iðnaðarfyrirtæki og iðnverkefni, tvö, þrjú a.m.k., vera í pípunum, sum byrjuð, og umtalsverða fjárfestingu og uppbyggingu í hótelum, í íbúðarhúsnæði. Það er þegar komin bóla á fasteignamarkaðinn t.d. varðandi skrifstofuhúsnæði á miðborgarsvæðinu þar sem hækkun fasteignamats er 25% tvö ár í röð, það er ekkert annað en bóla. Það er gríðarlega mikið peningamagn í umferð, allt of mikið auðvitað, eftirstöðvar af ruglinu þegar það þrefaldaðist á örskömmum tíma í þenslunni fyrir hrun. Hin gríðarmikla fjárfestingargeta lífeyrissjóðanna upp á um 100 milljarða plús/mínus á ári safnast upp í hagkerfinu á bak við fjármagnshöft og þannig mætti áfram telja. Við sjáum líka merki þess að vöruskiptajöfnuðurinn er kominn í nokkurn veginn í núll. Það er hverfandi afgangur orðinn á vöruskiptajöfnuði og ef ekki kæmi til hinn ævintýralegi vöxtur ferðaþjónustunnar og góður afgangur á þjónustujöfnuði, meira að segja núna á vetrarmánuðunum, væri viðskiptajöfnuðurinn ekki mikill til að hrópa húrra fyrir. Hann sýnir augljós merki veikleika af því tagi sem við könnumst vel við.

Nú er það að vísu þannig að Seðlabankinn hefur ekki látið raungengið styrkjast og mun vonandi ekki gera jafnvel þó hann fari að hækka vexti, heldur áfram grimmum uppkaupum á gjaldeyri og ver þannig gengisstig krónunnar eitthvað nálægt þeim slóðum þar sem það er. Það mætti færa rök fyrir því að það þyrfti jafnvel að vera ívið veikara.

Þannig að við erum kannski í bili laus við þann vanda sem leiddi af vaxtahækkununum á árunum eftir 2002, 2003 þegar innstreymi fjármagns bættist við allt hitt sem þandi út hagkerfið, stóriðjufjárfestingarnar o.s.frv. En hvað er það sem stjórnarliðar hafa verið að hamast við hér undanfarna daga, nokkrar vikur? Jú, það er að reyna að troða fleiri virkjunarkostum í nýtingarflokk rammaáætlunar til þess að hægt sé að virkja meira og fara í meiri stóriðju. Þeir hafa ekkert lært. Ekki neitt. Þeir væru alveg til í og vilja kannski bara annan snúning, trúandi ef til vill á það að þeir verði voðalega vinsælir ef þeir ná að láta ríkisstjórnina hanga saman á vormánuðum 2017 því þá sé búin að vera hér blússandi þensla og allir séu voðalega ánægðir í veislunni. En er það það sem við viljum, að fara að nýjan hring?

Hvað væri skynsamlegasta tækið, frú forseti, ef við höfum raunverulegar áhyggjur af þessu? Reynslan hefur kennt okkur að við þurfum að spyrja þessara gagnrýnu spurninga áður en það er orðið of seint að grípa í taumana. Ekki á eftir. Jú, það væri að beita ríkisfjármálunum með peningastefnunni, að horfa til þess að næstu árin færi afgangur af rekstri ríkissjóðs hratt vaxandi. Það hefði líka þann stórkostlega ávinning í för með sér að við gætum raunverulega farið að greiða niður skuldir að nafnvirði, en það ætlar þessi ríkisstjórn ekki að gera. Hún slær um sig með því að hlutfall opinberra skulda fari lækkandi af vaxandi landsframleiðslu. Já, auðvitað vegna þess að landsframleiðslan er að aukast, en við erum ekki að greiða þessar skuldir niður að nafnvirði. Við erum heldur ekki að byrja að auka í fjárfestingar þeirra innviða sem við urðum að halda aftur af okkur með og bíða með á mestu erfiðleikaárunum.

Það sem vekur langmesta undrun mína fyrir utan auðvitað hina grimmu hægri pólitík sem birtist í þeirri tölu sem ég nefndi fyrr í minni ræðu, að fara með frumútgjöldin niður í 23,4% af vergri landsframleiðslu í lok áætlunartímans, er fjárfestingarstigið. Það á ekki að auka við það eitt einasta hæti. Það á að halda því þar sem það er, 1,2% af vergri landsframleiðslu í fjárfestingar ríkisins. Það er ávísun á að það verður sáralítið svigrúm til þess að auka í framkvæmdir í vegamálum, í flugmálum, í heilbrigðiskerfinu, í menntakerfinu og annars staðar þar sem þörfin er mest. Og það rúmar ekki byggingu nýs Landspítala, algjörlega augljóslega, enda kemur það fram í greinargerðinni.

Herra forseti. Ég tel líka að áætlunargerð af þessu tagi sé talsverðum vanda bundin vegna þess að okkur vantar góðan þjóðhagsáætlanagrunn þar sem horft er langt inn í framtíðina. Það vantar til dæmis eiginlega allt hér inn sem heitir raunveruleg greining á því hverju við stöndum frammi fyrir á næstu 10–25 árum, þó að það væri ekki meira, varðandi lýðfræðilegar breytingar, varðandi aukna þörf fyrir fjármuni í umönnun við aldraða og heilbrigðiskerfið sem því tengist, þörf fyrir hjúkrunarrými, mannafla, tæki, lyf og annað því um líkt. Hér er farin ósköp einföld leið í þeim efnum. Gert er ráð fyrir 1% raunvexti í flestum útgjaldaflokkum, en aðeins meira í lyfjum og hlutum sem tengjast þeim geira sem ég hérna nefni. Er það byggt á greiningu? Nei, ekki fæ ég séð hana. Það er þetta sem þarf auðvitað að gera. Þá er hægt að reisa traustar stoðir undir rammaáætlunargerð og ríkisfjármálaáætlununum til einhvers tíma.

Ef nýju lögin um opinber fjármál eiga að ganga í gildi og það á að fara að vinna samkvæmt útgjaldarömmum einstakra málasviða, þar með talið heilbrigðismála, og menn ætla væntanlega að sýna síðan þá útgjaldaramma sem lið í svona áætlunum, á hverju ætla menn þá að byggja? Jú, við vitum að þjóðin er að eldast, það er að gerast á Íslandi, þó að vísu hægar og seinna en í mörgum öðrum löndum. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sem hér er í salnum hefur verið dálítið upptekinn af þessu. Það mátti stundum ráða af málflutningi hans að hann hefði sjálfur og einn og fyrstur manna uppgötvað að íslenska þjóðin væri að eldast og menn mundu þurfa að takast á við það í formi aukinnar þarfar fyrir hjúkrunarrými og annað slíkt, (Gripið fram í: Er það ekki rétt hjá honum?) (Gripið fram í.) Kannski er það rétt að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson hafi fyrstur fundið þetta upp, en þess þá heldur að fylgja málinu eftir. Það kallar á ákveðna hluti.

Ég vil því minna á tillögu sem hér liggur fyrir þinginu og er reyndar núna inni í efnahags- og viðskiptanefnd um að hefja undirbúning að því að gera þjóðhagsáætlanir til langs tíma. Það er mjög brýnt verkefni.

Að lokum er þetta svo auðvitað alltaf að einhverju leyti spurningin um ekki bara hvað er til skiptanna heldur hvernig því er skipt. Þar finnst mér áætlunin ekki lofa sérstaklega góðu eða annað það sem hæstv. ríkisstjórn er að gera. Hún er að segja við okkur, hún er að segja við íslensku þjóðina: Það verður minna og minna lagt til samneyslunnar og lífskjörin á Íslandi verða í minna og minna mæli jöfnuð í gegnum það að við rekum samábyrgt velferðarkerfi fjármagnað með sameiginlegum sköttum. Það er það sem ríkisstjórnin er að segja í tölunni 23,4% í frumútgjöld 2019. Ekkert annað. Grimm hægri stefna. Það er mikið fráhvarf frá í því sem var í tíð fyrri ríkisstjórnar. Má ég þá minna á Hagtíðindi — Laun, tekjur og vinnumarkaður sem komu út í morgun. Ég hef ekki tíma til að fara í það að ráði, en hér eru að koma mælingar á árinu 2012, Gini-stuðull og fjórðungastuðull fyrir árið 2013, og Gini-stuðull fyrir árið 2014 á grunni tekna og skatta ársins 2013 og útkoman er glæsileg. Við skildum við landið jafnara en það hefur verið t.d. á mælikvarða Gini-stuðulsins (Forseti hringir.) frá upphafi slíkra mælinga. Þannig að það tókst og gekk fullkomlega eftir sem menn ætluðu sér með breytingum (Forseti hringir.) á skattkerfinu og öðrum slíkum ráðstöfunum að jafna lífskjörin í landinu.