144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[16:22]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hv. þingmaður bendir á gallana við þessa ríkisfjármálaáætlun og að í rauninni þyrfti hún að vera betri, það skorti á langtímahugsun og að við sýnum hvernig við ætlum að takast á við vandamál sem þarf að leysa innan skamms. Hann nefndi meðal annars aldursskiptingu þjóðarinnar, en það eru líka stórar fjárfestingar sem við þurfum að fara í sem ekki er útlistað hér og í þessari áætlun er ekki útlistað hvernig á að leysa þessi stóru vandamál. Hv. þingmaður fer með varnaðarorð um að nauðsynlegt sé að sýna varkárni.

Ég tek undir þau orð vegna þess að fyrir hagstjórnarmistökin þurfum við almenningur að greiða. Það getur verið gaman hjá hæstv. ríkisstjórn í tvö, þrjú missiri, en síðan kemur skellurinn og hann mun lenda á almenningi. Ég tek því undir varnaðarorð hv. þingmanns.

Ég spyr hv. þingmann hvernig hann telji að það leggist inn í kjaraviðræður við ríkisstarfsmenn að í þessari áætlun sé sagt beinlínis að ef kaupmáttur fari umfram 2% á ári út spátímann hjá ríkisstarfsmönnum verði skorið niður, starfsmönnum fækkað o.s.frv., nú þegar svona mikill niðurskurður hefur verið í ríkiskerfinu, álag á starfsmenn mikið eftir hrun og við hefðum frekar átt að fara í hina áttina. Svo er einnig þetta með þróun frumgjalda af vergri landsframleiðslu miðað við Norðurlöndin, þar stöndum við ekki vel fyrir.