144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[16:27]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Af því að hv. þingmaður hefur mikla þingreynslu langar mig að spyrja hann praktískrar spurningar um hvernig við förum með þessa áætlun í þinginu. Við þurfum að greiða um hana atkvæði að lokinni umræðu og nú þegar eru margar tölur orðnar rangar af því að það er búið að taka ákvörðun um að breyta skattkerfinu sem var dýrara en lagt var upp með í áætluninni og húsnæðisfrumvörpin voru ekki metin en þau eru komin fram. Við vitum nú þegar að áætlunin er úr lagi gengin. Hvernig eigum við þá að greiða atkvæði um eitthvað sem við vitum að stenst ekki? Ég hef haft áhyggjur af því að það er beinlínis lagt til að fara gegn 69. gr. laga um almannatryggingar. Í hvaða stöðu eru þingmenn settir til að greiða atkvæði um það hvort þeir ætli að brjóta lög um almannatryggingar með þessari áætlun eða ekki? (Forseti hringir.) Eru þeir að færa hæstv. ríkisstjórn leyfi til að fara gegn lögum og kjörum þeirra (Forseti hringir.) sem þurfa að reiða sig á bætur?