144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[16:35]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ef hv. þingmaður telur að til viðbótar þeirri skattlagningu lífeyris þegar hann kemur til útgreiðslu, sem er nokkuð myndarleg, eigi líka að leggja einhvers konar eignarskatt eða stóreignaskatt á lífeyrissparnað þá er það athyglisverð hugmynd. En það er rétt, við gengum ekki svo langt. Auðlegðarskatturinn er þekkt fyrirbæri og hefur frekar verið í sókn á nýjan leik. Mönnum hefur gengið misvel að koma honum á en bæði austan hafs og vestan hafa menn gert tilraunir í þá átt, bæði Obama og Hollande ætluðu sér eða hafa ætlað sér að reyna að koma á einhvers konar auðlegðarskatti. Norðmenn sem eru með lægsta Gini-stuðul í heimi leggja einmitt á auðlegðarskatt, formue-skatt, og hafa gert. Hann er enn við lýði þó að þar sé hægri stjórn af því að það þykir sjálfsagt að allra ríkasti hluti norsku þjóðarinnar leggi sérstaklega af mörkum. (Gripið fram í: Nema hvað.) Og nema hvað?

Varðandi stóriðjuna var ég að ræða um það að ég teldi nóg í pípunum og það þyrfti ekki að troða með handafli inn í rammaáætlun fleiri virkjunarkostum (Forseti hringir.) til að auka þar við. Það var það sem ég var að ræða sem olli þessu gosi hjá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni (Gripið fram í.) í framhaldinu.