144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[16:39]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það að stefna svona lágt með frumgjöldin er ekki ávísun á neitt annað en að draga saman velferðarkerfið eða samneysluna eins og við köllum svo og það á tímum þegar Ísland þarf að undirbúa sig undir hið gagnstæða, að takast á við breytta aldurssamsetningu og byrja að fjárfesta í því sem þarf. Við þurfum að mæta framtíðarlífeyrisskuldbindingum ríkisins o.s.frv. Það væri miklu betra að gera það áður en aldurssamsetningin breytist of mikið vegna þess að þá eru hlutföllin ekki eins skökk. Það eru hlutfallslega fleiri á vinnumarkaði sem greiða skatta sem fullvinnandi fólk og færri aldraðir og svo smátt og smátt breytast þessi hlutföll býsna dramatískt á Íslandi úr því að um 10% eru á eftirlaunaaldri í dag yfir í að það verða orðin 25% innan ekkert mjög langs tíma. Svo hratt mun þetta gerast og er þó þróunin hér heldur hægari en víðast annars staðar, a.m.k. á meðan fæðingartíðnin er þetta mikil.

Vissulega byggir ríkisstjórnin á góðum grunni þess sem gert var. Þess vegna hefur hún getað haft þetta svo þægilegt að hún getur slegið um sig með einhverjum skattalækkunum. Vegna batans í hagkerfinu hefur það ekki verið ávísun á að ríkissjóður færi beinlínis í halla vegna þess að auðvitað njótum við öll góðs af því að það eru aukin umsvif ár eftir ár. Hagvöxturinn er að skila meiru. Það segir ekkert um það hversu miklu betra ástandið gæti verið ef menn hefðu látið þessa tekjustofna í friði. Það verður allt í lagi fyrir næstu ríkisstjórn að koma svo bara og gera það sem þarf, þar með talið mögulega að hækka skatta ef þess reynist þörf. Ekki er það mín reynsla að það sé yfirleitt beinlínis auðvelt. Það er nefnilega svolítið með skatta eins og helluna á Húsafelli forðum, það er fullt af mönnum sem getur komið og velt henni niður en þeir eru ekki eins margir sem koma henni upp. Það er billegt að slá um sig með lækkun (Forseti hringir.) skatta á tímum þenslu í hagkerfinu og ætla svo einhverjum öðrum að takast á við afleiðingarnar seinna.