144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[16:43]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Við skulum bíða og sjá hvort 400–500 milljarðar koma sisona til okkar og við getum bara sippað því yfir í að borga niður skuldir ríkisins. Við skulum í fyrsta lagi bíða eftir að sjá hvort þetta verður (Gripið fram í: Einhvern tímann.) og í öðru lagi er það hagstjórnarlega ekki alveg einfalt mál ef slíkir fjármunir fara allt í einu á ferð í kerfinu. (Gripið fram í.) Mjög margir hagfræðingar mundu væntanlega leggja til að þeim krónum yrði einfaldlega eytt, að peningamagn í umferð yrði dregið verulega saman, í öllu falli að ekkert af þessu færi í umferð á tímum vaxandi þenslu í hagkerfinu. Hér er hagstjórnarlegur vandi sem þarf að líta til.

Að öðru leyti er ég alveg sammála þeim þremur stóru verkefnum sem hv. þingmaður nefndi, hann talaði um spítalann, breytta aldurssamsetningu og lífeyriskerfið. Við erum að vísu svo lánsöm að um sjóðsöfnunarkerfi er að ræða og við náðum að verjast því að farið væri inn í það kerfi og seilst í framtíðartekjurnar í lífeyrissjóðunum. Það hefur að vísu núverandi ríkisstjórn gert að hluta til í séreignarsparnaðinum, en það góða við (Forseti hringir.) sjóðsöfnunarkerfið er að ríki og sveitarfélög fá samtímis vaxandi tekjur og útgreiðslurnar aukast af því að þetta fer óskattað inn og er skattað út. Það mun hjálpa okkur gríðarlega til að takast á við það verkefni sem tengist breyttri aldurssamsetningu þjóðarinnar.