144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[16:45]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Við ræðum ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016–2019. Hér hefur verið mælt fyrir tveimur nefndarálitum, annars vegar meirihlutaáliti þar sem er farið ansi mjúklegum höndum um málið og hins vegar mjög góðu nefndaráliti minni hluta fjárlaganefndar sem ég þakka sérstaklega fyrir.

Ég vil byrja á að segja að það er ánægjulegt að loksins sé verið að uppfylla lög um þingsköp með framlagningu ríkisfjármálaáætlunar og það ber að þakka. Ég geri hins vegar þær athugasemdir, eins og reyndar meiri hlutinn, að það þurfi ítarlegri útlistun á rammanum. Það er mjög erfitt að sjá hvernig á að útdeila fjármunum á mismunandi málasvið og þó er ég ekki að ætlast til mikils, ég er að tala um að við áttum okkur eitthvað á því hvernig eigi að styrkja til dæmis mennta- og heilbrigðiskerfið, og harma að ekki hafi verið nýtt sú heimild í þingskapalögunum sem segir að fjárlaganefnd geti „leitað umsagnar annarra nefnda um einstök atriði tillögunnar eftir því sem hún ákveður hverju sinni og setur þá fresti til afgreiðslu umsagna annarra nefnda“ eins og segir í 25. gr. þingskapalaga.

Nú er það svo að við í velferðarnefnd fengum ekki þessa tillögu til umsagnar sem er svolítið bagalegt því að við erum með yfir 50% af útgjöldum ríkisins á okkar málasviði ef frá eru talin vaxtagjöld ríkissjóðs. 260 milljarðar eru á málasviðum velferðarnefndar og við hefðum mjög gjarnan viljað fjalla um þessa áætlun. Þegar ég les hins vegar áætlunina get ég kannski skilið að fjárlaganefnd hafi ekki treyst sér til að taka þá ákvörðun því að það er mjög erfitt að lesa yfir höfuð nokkuð út úr henni varðandi einstaka málaflokka. Það eina sem við hefðum getað gert hefði verið að varpa mjög ítarlegum spurningum til fjárlaganefndar en það hefði verið mikilvægt fyrir okkur að fá tækifæri til þess.

Stórir og útgjaldaþungir málaflokkar heyra undir okkur, t.d. almannatryggingarnar og heilbrigðismálin. Svo erum við með húsnæðismál, málefni fatlaðra, málefni aldraðra, málefni barna og fleira því um líkt. Þarna eru mjög stórir útgjaldaliðir. Ef við byrjum á almannatryggingunum sætir það furðu að með samþykkt þessarar ríkisfjármálaáætlunar væri meiri hlutinn á Alþingi að taka pólitíska ákvörðun um að auka ójöfnuð í íslensku samfélagi. Af hverju segi ég það? Jú, af því að hér er verið að leggja til að ekki verði meiri kaupmáttaraukning en 2% hjá opinberum starfsmönnum. Hjá lífeyrisþegum, þ.e. þeim sem eru í almannatryggingakerfinu, á hún hins vegar að verða 1%. Það hefur líka komið fram í tilsvörum hæstv. fjármálaráðherra að hann telji ekki eðlilegt að sömu launahækkanir gangi til lífeyrisþega og launafólks, þá sérstaklega lágtekjufólks sem hækkar mest. Eðlilega hafa samtök lífeyrisþega eins og Öryrkjabandalag Íslands og Landssamband eldri borgara mótmælt þessu harðlega, enda er þetta ranglátt og getur ekki staðist sem pólitísk sýn að það sé stefnan að auka ójöfnuð. Það er sorglegt að við séum að ræða þetta þegar við fáum fréttir af því að með þrotlausri vinnu hafi á síðasta kjörtímabili tekist að auka jöfnuð. Hagstofan gaf út frétt núna um að aldrei hefði jöfnuður mælst jafn mikill og á árinu 2014 og við skulum muna að sá jöfnuður grundvallast auðvitað á tekjuárinu 2013, tekjuári sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur lagði grunninn að með fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2013 þannig að sá jöfnuður er pólitísk arfleifð Jóhönnu Sigurðardóttur sem nú er smám saman verið að slíta í sundur. Tekjuskattsbreytingar áranna 2014 og 2015 eru ekki inni í tölum Hagstofunnar. Ef þessi ríkisfjármálaáætlun verður samþykkt mun ójöfnuðurinn sem ríkisstjórnin hefur stuðlað að 2014 og 2015 aukast enn frekar og það er alvarlegt. Jöfnuður er pólitískt markmið jafnaðarmanna af því að jöfnuður er réttlátt fyrirkomulag, það er betra fyrir okkur öll, ekki bara þá tekjulægri heldur er það gott fyrir allt samfélagið. Hann stuðlar að meiri félagslegri samheldni, betri heilsu, jafnari tækifærum og skapar samfélag þar sem eru minni glæpir og við erum öruggari og frjálsari einstaklingar.

Ég vara mjög við því að þessi ályktun verði samþykkt óbreytt. Það er þvert á loforð sérstaklega Framsóknarflokksins sem ætlaði að leiðrétta allar skerðingar sem gerðar hefðu verið á lífeyrisþegum í tíð fyrri ríkisstjórnar. (Gripið fram í.) Raunin er sú að eina breytingin sem þessi ríkisstjórn hefur gert varðar grunnlífeyrinn, og það var fínt, en aðrar breytingar um lækkandi skerðingarhlutföll eru breytingar sem fyrri ríkisstjórn gerði sem tóku gildi á árinu 2014. Það var búið að taka þær ákvarðanir fyrir núverandi ríkisstjórn en það eru ýmsar skerðingar sem ekki hafa verið leiðréttar og nú á að snuða þennan hóp sem telur að minnsta kosti 40 þús. manns. Þetta er enginn smáhópur. (VigH: … skerðingarnar …)

Þegar við komum að húsnæðismálunum hafa verið uppi fögur fyrirheit um að breyta stuðningskerfi bæði varðandi stofnstyrki og húsnæðisbætur. Það var svo sem búið að leggja grunninn að þeim breytingum við síðustu kosningar en það hefur tekið tvö ár að koma málunum í frumvörp og tvö þeirra hafa ekki enn litið dagsins ljós og það eru auðvitað frumvörpin sem þýða aukin útgjöld ríkissjóðs. Þau eru boðuð núna og það er meira að segja búið að segja að það eigi að samþykkja þau í sumar og þau eigi að taka gildi í upphafi næsta árs en við eigum eftir að sjá þau. Ég á erfitt með að sjá hverju á að bæta inn í þar, það kemur ekki fram og er gefið í skyn að það kunni jafnvel ekki að verða ef kjarasamningar séu ekki hagfelldir að mati ríkisstjórnarinnar og þó að það komi ekki þessari áætlun beinlínis við er ágætt að minnast þess að um áramótin var ein af mótvægisaðgerðunum við hækkun matarskatts að hækka húsaleigubætur um 400 millj. kr. Í svari við munnlegri fyrirspurn svaraði félags- og húsnæðismálaráðherra mér því um daginn að þessar 400 milljónir hefðu ekki verið settar inn í kerfið og hún vonaði að hún gæti nýtt þá peninga inn í nýtt kerfi en það verður þá ekki fyrr en á næsta ári. Ég hvatti ráðherrann til að gera breytingarnar strax og nýta þessa fjármuni enda eru þeir leigjendur sem eiga rétt á húsaleigubótum í mikilli þörf fyrir hækkun þeirra bóta. Þetta átti að vera sérstök mótvægisaðgerð fyrir hóp sem ekki fékk lækkun skulda en tók á sig með miklum krafti hækkun matarskatts.

Ég hef mjög miklar áhyggjur af heilbrigðismálunum. Hér eru yfirstandandi alvarleg verkföll stórra kvennastétta sem hafa haldið samfélaginu gangandi frá hruni og krefjast þess nú að fá hækkanir til jafns við aðra. Álag er á heilbrigðiskerfið í niðurskurði sem hefur staðið yfir í rúman áratug, það var ekki bara hrunið, frá 2002 hefur verið niðurskurður í heilbrigðismálum en sjúklingum hefur fjölgað vegna hækkandi aldurs þjóðarinnar sem þýðir að færri hafa unnið meira á lakari kjörum. Launaliðurinn er mjög stór sem hefur þýtt að í niðurskurði hefur hann bitnað á kjörunum því að það er mjög erfitt að fækka sjúklingum. Það er eftirsóknarvert með ýmsum stefnum, við getum í gegnum aukna áherslu á lýðheilsu fækkað sjúklingum en með vaxandi aldri eykst auðvitað byrðin á heilbrigðiskerfið. Álagið hefur aukist og kjörin versnað og það verður að koma þarna inn, það hlýtur öllum að vera ljóst. Það er ágætt að minnast þess að Capacent Gallup gerði könnun fyrir þingflokk Pírata þar sem kom í ljós að hátt í 90% landsmanna eru sammála um að höfuðáherslan í forgangsröðun á skattfé eigi að vera á heilbrigðismálin. Það er einhugur um þetta hjá kjósendum allra flokka í öllum kjördæmum, í öllum aldurshópum, í öllum tekjuhópum og af báðum kynjum. Það er fátt sem við Íslendingar erum jafn sammála um og það að við viljum forgangsraða skattfé inn í heilbrigðiskerfið.

Það hefur verið talað um að það eigi að styrkja áframhaldandi rekstrargrunn Landspítalans og það hefur verið gerð tækjakaupaáætlun en ég átta mig ekki á því hvort hún er inni í þeim 2,5 milljörðum sem á að nýta til að auka fjármuni inn í stjórnsýslu- og eftirlitsstofnanir, löggæslu- og öryggisstofnanir og heilbrigðisstofnanir. Ég veit það ekki. Ég vona að það sé þar fyrir utan en þessir 2,5 milljarðar sem virðast eiga að vera til að efla opinbera þjónustu eru eins og dropi í hafið. Það þarf að auka umtalsvert fé inn í málaflokkinn og í upptalningu á þessum 2,5 milljörðum er menntakerfið hvergi sjáanlegt. Þar þarf líka að bæta inn fjármunum.

Stórir hlutar af bæði menntakerfinu og heilbrigðiskerfinu nutu ekki góðærisáranna sérstaklega og tóku á sig sinn skerf í niðurskurði enda eru þessir málaflokkar með svo hátt hlutfall af útgjöldunum að það var ekki hægt að hlífa þeim. Það þýðir að þegar hagur vænkast hljótum við að leggja aftur fé inn í þessa málaflokka. En hér fáum við það svart á hvítu að það er ekki fyrirætlan þessarar ríkisstjórnar. Þau skammast sín ekkert fyrir að segja okkur hvernig þau hafa ákveðið að draga úr tekjuöflun ríkissjóðs og hér vil ég segja að auðvitað hlýtur það að vera markmið okkar að skattlagning sé hófleg og málefnaleg. Áhersla jafnaðarmanna á skattkerfið sem tæki til skilvirkrar öflunar fjár fyrir ríkissjóð sem og til að jafna kjörin er pólitískt markmið sem við skömmumst okkar ekkert fyrir. Við leggjum ekki á skatta bara til að leggja á skatta. Við leggjum á skatta meðal annars til að fjármagna heilbrigðis- og menntakerfið og almannatryggingakerfið, kerfi sem langflestir eru sammála um að þurfi að fjármagna mynduglega til að við búum hér í góðu samfélagi.

Þegar við síðan leggjum á skatta þurfum við að hugsa um á hverja við erum að leggja skattana. Í samræmi við það að þjóðin ætti að njóta arðs af auðlindum sínum hækkuðum við veiðigjöld. Aðgerðir núverandi ríkisstjórnar til lækkunar telst mér til að gætu á þessu ári verið um 6 milljarðar miðað við lokin hjá fyrri ríkisstjórn. Þegar kemur að auðlegðarskattinum sem var látinn falla úr gildi voru það 10,7 milljarðar í tekjur á ári. Þegar kemur að brottfalli tekna vegna afnáms almennu vörugjaldanna nemur það 6,4 milljörðum kr. á ári. Samfylkingin er sammála því að afnema vörugjöld en við vorum ósátt við tímasetninguna.

Síðan var það orkuskattur, 2,2 milljarðar, sem féll mest á stóriðjuna. Svo er sérstaki persónuafslátturinn sem fólk notar til að greiða inn á lánin sín, það eru 5,7 milljarðar og það er ákvörðun sem meiri hlutinn vildi taka en þegar við teljum þetta allt saman eru þetta tugir milljarða á ári frá útgerðinni, ríkustu Íslendingunum og stærstu fyrirtækjunum sem eru vel aflögufær.

Auðvitað viljum við öll sem mestar ráðstöfunartekjur en þegar fólk yfir meðaltekjum fær að velja á milli þess að skattar þess séu lækkaðir eitthvað dulítið eða féð sé nýtt til að efla heilbrigðiskerfið og menntakerfið vill enginn sjá heilbrigðiskerfið molna niður. Við vitum líka öll að við höfum fé að sækja í arð af auðlindunum og þeir sem mestar eignir eiga í samfélaginu verða á tímum sem þessum að leggja meira til. Þannig er það einfaldlega og það er réttlátt. Það er ekkert ósanngjarnt við það því að fjöldinn allur af einstaklingum á Íslandi, stóreignafólki, er tilbúinn að greiða þessa skatta af því að fólk vill búa í samfélagi þar sem allir hafa aðgengi að heilbrigðisþjónustu og menntun óháð efnahag. Það er gott fyrir okkur öll sama hversu háar tekjur við höfum og hversu miklar eignir sem við eigum.

Í þessari ríkisfjármálaáætlun er verið að segja: Það á ekki að auka mynduglega fjármagn inn í heilbrigðiskerfið. Það verður samt að gera það og það verður líka að draga úr kostnaðarþátttöku sjúklinga. Sjúklingar greiða nú úr eigin vasa rúma 30 milljarða á ári fyrir heilbrigðisþjónustu og lyf. Við verðum að lækka þessa hlutdeild, auk þess sem við þurfum að leggja meira fé inn í kerfið þannig að það þarf að lyfta grettistaki til að endurreisa heilbrigðiskerfið, leyfi ég mér að segja. Mér finnst mjög alvarlegt að þess sjáist ekki staður í þessari áætlun. Ég læt nægja að fjalla um velferðarmálin hér, frú forseti, enda stendur mér það nærri sem formanni velferðarnefndar, en það litla sem hægt er að lesa út úr þessari ályktun boðar ekki bjarta framtíð fyrir velferðarmál á Íslandi.